Hlustum á unglinga og byggjum betri heim

umfi ungt fólk og lýðræðiÁrið er 2016 og loksins glittir í þá hugmynd að það sé hagkerfi okkar og heilsu allra landsmanna til bóta að hlusta enn frekar á raddir barna og ungmenna. Sífellt fleiri sveitarfélög hafa stofnað ungmennaráð og nýta krafta og hugmyndir nefndarmanna sveitarfélaginu til framdráttar. Sú staðreynd grundvallast m.a. af tilkomu nokkurra sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um réttindi, bæði fatlaðra og ófatlaðra, barna og ungmenna.

Á ungmennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í byrjun febrúar sl. um aðkomu ungs fólks að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna til ársins 2030 sagði ungmennamálaráðherra Noregs Solveig Horne, að ráðamenn yrðu að gera sér grein fyrir því að börn og ungmenni eru til staðar í dag – ekki einungis verðandi fullorðnir þjóðfélagsþegnar. Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) leggur ríka áherslu á þátttöku ungs fólks í öllu sínu starfi og einn þáttur í því er árlega ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði.

Dagana 16.–18. mars nk. fer fram á Selfossi ungmennaráðstefna UMFÍ Ungt fólk og lýðræði með dyggilegum stuðning Evrópu Unga fólksins. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár er Niður með grímuna – Geðheilsa ungmenna á Íslandi. Ungmennaráð UMFÍ hóf undirbúning ráðstefnunnar í maí á síðasta ári og hefur umræðan í þjóðfélaginu síðastliðna mánuði enn frekar staðfest áhyggjur ráðsins af málaflokknum, nú síðast skýrsla Ríkisendurskoðunar. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að það megi reikna með því að um 16.000 börn og ungmenni hér á landi séu í þeirri stöðu að þau muni einhvern tíma þarfnast ítar- eða sérþjónustu vegna geðheilsuvanda. Í sömu skýrslu kemur einnig fram að „Um 718 börn biðu sér- og ítar- þjónustu vegna geðheilsuvanda undir árslok 2015“ þá er ótalið þau börn og ungmenni sem biðu grunnþjónustu. Engu að síður hafa stjórnvöld ekki lagt fram skýrar leiðbeiningar, áætlanir eða stefnu um hvernig verður best komið til móts við fyrrgreinda þjónustuþörf.

Ungmennaráð UMFÍ hvetur því þig lesandi góður til að fylgjast grannt með þegar ályktun ráðstefnunnar verður birt að henni lokinni föstudaginn 18. mars. Ráðstefnan er fyrir ungt fólk, haldin af ungu fólki sem treystir sér fullkomlega til að fjalla um jafn alvarlegt málefni og raun ber vitni. Ályktun ráðstefnunnar mun endurspegla vinnu ráðstefnunnar og ákall til stjórnvalda til að setja málefni barna og ungmenna í forgang.

Við setning ráðstefnunnar mun Steinunn Anna Sigurjónsdóttir sálfræðingur á Kvíðameðferðastöðinni flytja erindi og ungmennaráð UMFÍ mun fjalla um stöðu málaflokksins frá sínu sjónarhorni. Setning fer fram fimmtudaginn 17. mars kl. 9:30 og er þér lesandi góður boðið á setningu ráðstefnunnar á Hótel Selfossi.

Aðalbjörn Jóhannsson, formaður Ungmennaráðs UMFÍ.
Sabína Steinunn Halldórsdóttir, landsfulltrúi UMFÍ.