Ungmennaráð Ölfuss tók í vikunni þátt í ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði sem Ungmennafélag Íslands stóð fyrir. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár var Niður með grímuna – Geðheilsa ungmenna á Íslandi.
Skipulag og undirbúningur ráðstefnunnar var í höndum Ungmennaráðs UMFÍ og í byrjun ráðstefnunnar bentu fulltrúar úr ráðinu á það vandamál sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir í dag hvað varðar geðheilsu ungs fólks. Helltu fulltrúarnir 718 golfkúlum á gólfið og stóð hver og ein þeirra fyrir einn einstakling sem var á biðlista eftir sértækum úrræðum um seinustu áramót.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, flutti erindi á ráðstefnunni og tók hann undir áhyggjur ungmennanna. Jafnframt tók hann fram að það að lagfæra kerfið hvað varðar geðheilsu fólks sé eitt helsta úrlausnarefni sem íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir í dag.
Fulltrúar úr Ungmennaráði Ölfuss á ráðstefnunni voru Berglind Dan Róbertsdóttir, Sandra Dögg Þrastardóttir, Sandra Dís Jóhannsdóttir og Adam Freyr Gunnarsson og voru þau virkilega sátt með ráðstefnuna og komu þau reynslunni ríkari heim.