Þórsurum tókst ekki að leiða einvígið við Hauka þegar liðin mættust í þriðja sinn í 8-liða úrslitum í gærkvöldi.
Leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi og út þriðja leikhluta en Haukarnir voru sterkari í loka fjórðungnum og sigldu í höfn 84-75 sigri.
Leiðinlegt atvik átti sér stað undir lok fyrsta leikhluta þegar Brandon Mobley, Bandarískur leikmaður Hauka, gaf Davíð Arnari olnbogaskot og var hann fyrir vikið rekinn út úr húsi. Hann verður því mögulega í banni í fjórða leik liðanna í Þorlákshöfn á þriðjudaginn.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Mobley missir stjórn á skapi sínu en í síðasta leik liðanna í Þorlákshöfn gaf hann Þorsteini Má olnbogaskot í andlitið en var ekki rekinn úr húsi þá.
Einari Árna, þjálfara Þórs, lýst ekkert á það ef Mobley verði í banni í næsta leik þar sem hann vill meina að Haukarnir séu betri án hans.
„Þeir eru mikla meira lið án hans. Hann er hæfileikaríkur, en smitar ekki vel frá sér. Hann er tuðandi í dómurum, olnbogar menn, hótar fólki og þeir eru mikli betri án hans. Ég lít ekki á að við séum á leið í auðvelt verkefni þó Haukarnir séu án hans, síður en svo,” sagði Einar Árni í samtali við Vísi eftir leikinn í gær.
Fjórði leikur liðanna fer fram í Þorlákshöfn á þriðjudaginn og geta þá Þórsarar jafnað einvígið með sigri.