Skuldahlutfall Ölfuss komið niður í 91%

radhus01Ársreikningur Sveitarfélagsins Ölfuss fyrir árið 2015 var tekinn til síðari umræðu í seinustu viku og var afkoma samstæðunnar jákvæð um 6 m.kr. en í fjárhagsáætlun ársins 2015 var gert ráð fyrir um 58 m.kr. afgangi.

Þegar talað er um samstæðu sveitarfélags þá er verið að tala um A og B hluta starfseminnar.

  • A-hlutinn er sá hluti af starfseminni sem er að mestu leyti fjármagnaður með skatttekjum og undir hann fellur m.a. fræðslustarfsemi, félagsþjónusta, íþrótta- og æskulýðsmál, umhverfismál, skipualgsmál og hreinlætismál. A-hlutinn, er kjölfestan í rekstri sveitarfélaga.
  • B-hluti er sá hluti starfseminnar sem er að mestu eða öllu leyti fjármagnaður með þjónustutekjum og undir hann falla m.a. hafnarsjóður, félagslegar íbúðir, vatnsveita, og fráveita.

Þegar einungis A-hlutinn er skoðaður þá má sjá að rekstrarniðurstaðan var neikvæð um 21,6 m.kr. eftir fjármagnskostnað en samkvæmt fjárhagsáætlun ársins 2015 var gert ráð fyrir um 23 m.kr. afgangi.

Engin ný lán voru tekin á árinu og lækkuðu langtímaskuldir um 88 m.kr. en á sama tíma var fjárfest í varanlegum rekstrarfjármunum fyrir um 123 m.kr. Veltufé frá rekstri samstæðunnar var 215 m.kr., handbært fé 151 m.kr. og eiginfjárhlutfallið hélt áfram að styrkjast og var í lok árs 52%.

Skuldahlutfall sveitarfélagsins hefur farið stöðugt lækkandi á síðustu árum frá því sem það var mest 198% og í árslok 2015 var það um 91% en skv. sveitarstjórnarlögum mega heildarskuldir og skuldbindingar samstæðunnar ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglubundnum tekjum.

Samkvæmt bókun bæjarstjórnar þá var rekstur sveitarfélagsins “með svipuðum hætti og undanfarin ár og unnið var áfram að því að bæta og styrkja innviði þess til þess að gera það enn betur hæft til þess að mæta óskum íbúa um enn betri þjónustu.”