Ég fer ekki oft út af sporinu í mataræðinu og borða öllu jafna mjög hollan og hreinan mat. Það er margt sem ég kýs að sniðganga alveg, eins og t.d. glúten, mjólkurvörur og unninn sykur. Þar sem að ég er með mikið fæðuóþol fæ ég að líða mikið fyrir það, bæði andlega og líkamlega, þegar ég fer út af sporinu. Ég verð m.a. þreytt, pirruð, slöpp, orkulaus auk þess sem að meltingin mín fer alveg í rugl.
En þar sem ég er ekki fullkomin þá kemur það einstaka sinnum fyrir að ég fari út af sporinu í mataræðinu og á það til að rífa mig niður í kjölfarið. Mér líður eins og ég hafi ollið sjálfri mér gríðarlegum vonbrigðum. Það sem gerist oft í kjölfarið er að ég reyni að flýja skömmina með því að borða ennþá meira af því sem ég á ekki að vera borða víst að ég sé nú “fallin“ hvort sem er. Sú ákvörðun getur reynst heilsunni minni ansi dýrkeypt og magnast vanlíðanin upp alveg þangað til að ég fæ nóg. Á endanum tek ég ábyrgð á heilsu minni á ný og set hollt og hreint fæði í forgang aftur í mikilli neyð.
Þú þarft alls ekki að vera með fæðuóþol eins og ég til þess að upplifa svona vítahring. Þegar maður borðar unna fæðu eins og t.d. skyndibita, sælgæti og gos þá verður maður orkulaus, jafnvel án þess að taka eftir því. Það þarf ekki einu sinni að vera bara unnin fæða sem fer illa í þig, kannski ert þú með einhverskonar fæðuóþol eins og ég og þá þarf t.d. ekki meira en eina flatköku með smjöri til þess að maður verði orkulaus og þreyttur (ef þú ert með glúten- og mjólkuróþol þ.e.a.s.).
Hvernig ferð þú í gegnum daginn?
Sumum finnst eðlilegt að fara í gegnum daginn orkulausir og þreyttir því að þeir þekkja ekki annað. Ég hef sjálf alveg verið þar og ég hélt að ég væri meira að segja að borða mjög holla og næringarríka fæðu. En samt var ég alltaf þreytt og orkulaus yfir daginn. Eftir að ég fór síðan að skilja hvað hrein og holl fæða er í raun og veru breytti ég um mataræði og í kjölfarið varð líðanin allt önnur. Ég varð skýrari í hugsun, leið miklu betur og varð orkumeiri fyrir vikið. Svo þegar maður prufar að borða ruslfæðið aftur þá sér maður hversu mikil áhrif það hefur á andlega og líkamlega heilsu manns. Maður tekur því í rauninni ekki eftir því fyrr en maður hættir alveg að borða ruslfæði og skiptir yfir í hreint fæði hversu mikil áhrif mataræðið getur haft á andlega- og líkamlegan líðan manns.
Væri ekki betra að borða allt í hófi til þess að sleppa við svona rússíbanaferð?
Fyrir mitt leiti er svarið við þessari spurningu einfalt: Nei. Þegar að ég næ að sniðganga alveg og hreinsa mig alveg frá glúteni, mjólkurvörum og unnum sykri þá líður mér stórkostlega. Ég er skýr í hugsun og mér líður mjög vel bæði andlega og líkamlega. Það þarf rosalega lítið og ekki meira en einn súkkulaðimola til þess að ég upplifi þau áhrif sem það hefur á mig að borða fæðu sem ég þoli ekki. Sumt í fæðunni eins og t.d. unninn sykur virkar á mig eins og fíkniefni, ef ég fæ smá af honum þá fæ ég hann á heilan og verð að fá mér meira strax. Það er því algjörlega ómögulegt fyrir mig að borða allt í hófi en fyrir þá sem geta borðað allt í hófi er það frábært fyrir þá. Við erum öll svo ólík og það sem hentar mér hentar ekki endilega næsta manni. Þess vegna er mjög mikilvægt að hlusta á líkama sinn og vera vakandi fyrir því hvað hentar manni best.
Mín ráð til þess að koma í veg fyrir það að maður fari út af sporinu.
Mig langar að deila með þér mínum ráðum hvað það er sem þú getur gert til þess að koma í veg fyrir að þú farir út af sporinu;
- Ekki eiga neitt til í skápunum sem þú átt ekki að vera að stelast í. Þú getur ekki stolist í neitt sem þú átt ekki til.
- Taktu með þér nesti eða borðaðu áður en þú ferð í veislur eða boð þar sem að þú veist að ekkert er í boði fyrir þig að borða.
- Skipulegðu þig vel og keyptu inn fyrir vikuna um helgar og ákveddu gróflega hvernig þú ætlar að borða næstu vikuna.
- Nýttu helgarnar í að fylla á lagerinn í frystinum þar sem þú getur t.d. átt hraðferðarbita, orkustykki, glútenlausar brauðbollur, súpu og hamborgara/grænmetisbuff. Þá áttu alltaf eitthvað til að grípa í þegar þú átt upptekna daga.
- Vertu ánægð/ur með þig fyrir að velja hollt og hreint mataræði. Minntu þig á reglulega afhverju þú kýst að velja það.
- Hrósaðu þér reglulega og taktu eftir því hversu vel þér líður af því að borða holla og hreina fæðu.
Ef þú ferð út af sporinu farðu þá inn á það aftur strax, ekki rakka þig niður heldur þakkaðu fyrir áminninguna að þú viljir ekki vera þarna og minntu þig á það hversu vel þér líður af hollu og hreinu fæði. Þó að það hafi sínar afleiðingar að fara út af sporinu þá getur það um leið reynst mér þörf áminning og mikill lærdómur. Þá fæ ég að sjá svo skýrt hversu mikil áhrif mataræði hefur á líkamlegu og andlega heilsu mína. Það hvetur mig meira en áður að borða holla og hreina fæðu og skil ég betur tilganginn með því.
Ekki taka lífinu of alvarlega og gerðu þitt besta á hverjum degi. Elskaðu þig eins og þú ert og ekki bera þig saman við aðra. Það er enginn fullkominn og ekki ætlast til þess að þú sért það.
Ást og friður,
Anna Guðný
Heilsa og vellíðan