Aukin flokkun á sorpi hjá stofnunum

umhverfisnefndLengi hefur verið rætt um það meðal starfsmanna og stjórnenda Sveitarfélagsins að fara í aukna flokkun á sorpi. Bæði leik- og grunnskólinn í Þorlákshöfn hafa stigið skrefið til fulls með góðum árangri þar sem sorp er flokkað í sjö mismunandi flokka. Þetta eru fjölmennustu vinnustaðir sveitarfélagsins og gekk innleiðingin vonum framar með dyggri aðstoð Þjónustumiðstöðvar. Reyndar er árangurinn svo góður að í dag þarf einungis litla dollu fyrir almennt sorp í grunnskólanum (sjá myndina hér til hliðar, en dollan með plastpokanum er fyrir almennt sorp).

Næsta skref er að flokkun fari fram hjá öllum stofnunum sveitarfélagsins. Þannig er tekið mikilvægt skref í átt að sjálfbærri þróun og umhverfisvernd. Með þessu verkefni mun sveitarfélagið stuðla að minni urðun og auka magn þeirra efna sem fara til endurvinnslu.

Undanfarið hafa Davíð Halldórsson, umhverfisstjóri og Anna Margrét Smáradóttir og Garðar Geirfinnsson sem eru fulltrúar í umhverfisnefnd grunnskólans, heimsótt allar stofnanir sveitarfélagsins til að skoða aðstæður á hverjum stað og kynna verkefnið.

Á meðfylgjandi myndum má annars vegar sjá nokkur flokkunaríláta í grunnskólanum, litla dollan með pokanum er fyrir almennt sorp en fyrir aftan er dolla fyrir kerti og þessi brúna er fyrir plastflöskur og áldósir (myndina tók Guðrún Jóhannsdóttir, skólastjóri). Á hinni myndinni má sjá þau Garðar, Önnu Margréti og Davíð í kynningaferð í Versölum þar sem Halldóra Guðrún Hannesdóttir, húsvörður, tók á móti þeim.

Grein af Ölfus.is