Starfsemi fiskþurrkunar Lýsis sjálfhætt ef markaðir lagast ekki

Lýsi logoÍ gær birtist frétt á vef okkar um að Lýsi væri að sækja um endurnýjun á starfsleyfi við Unubakka í Þorlákshöfn fyrir fiskþurrkun og í gær var stofnaður undirskriftarlisti til að mótmæla því að fyrirtækið fái endurnýjun á starfsleyfi sínu.

Fyrir um ári síðan tilkynnti Lýsi að til stæði að færa verksmiðjuna út fyrir bæinn til að koma í veg fyrir lyktarmengun í íbúðarbyggð. Kjartan Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri Lýsis í Þorlákshöfn, segir að skv. sveitarfélaginu sé hægt að byrja framkvæmdir strax en aðstæður erlendis hafa sett strik í reikninginn hjá Lýsi og telur hann óábyrgt að hefja framkvæmdir upp á um 1 milljarð á meðan staðan í Nígeríu er eins og hún er í dag, en Nígería er eini markaðurinn fyrir þá vöru sem Lýsi er að framleiða í fiskþurrkun sinni í Þorlákshöfn.

lýsiKjartan segir að núna sé einungis verið að óska eftir tímabundnu starfsleyfi og „ef markaðir í Nígeríu lagast ekki á þessu ári þá er þessari starfsemi í Þorlákshöfn sjálfhætt.“

Þessi markaðsbrestur hefur orðið til þess að verksmiðjan er einungis á 40-50% afköstum og er fyrirtækið að senda um 5 gáma út á mánuði. Lýsi hefur náð að selja framleiðslu sína á meðan mörg önnur fyrirtæki sitja uppi með hana og hafa þurft að segja upp starfsfólki.

Kjartan sagðist vel skilja gremju íbúa og gerir fyrirtækið sér fyllilega grein fyrir því að færa þurfi verksmiðjuna út fyrir bæinn og hefur Lýsi unnið að því seinustu mánuði en aðstæður í Nígeríu hafa hægt á því ferli. „Það er byrjað að hanna verksmiðjuna en ráðgert er að húsnæðið verði um 2.400 fm., þegar framkvæmdirnar hefjast má svo gera ráð fyrir að þær taki um 18 mánuði. Við erum svo að reyna að færa þurrkun á beinum á Reykjanes í júlí og ágúst og pakka í Þorlákshöfn til að minnka lyktarmengun í bænum“ sagði Kjartan í samtali við Hafnarfréttir.