Lýsi sækir um endurnýjun starfsleyfis á núverandi stað

thorlakshofn_loftmynd01Lýsi hf. hefur sótt um endurnýjun á starfsleyfi til Heilbrigðisnefndar Suðurlands vegna fiskþurrkunar á Unubakka í Þorlákshöfn.

Núverandi starfsleyfi var gefið út þann 6. júní 2008 og var það til 12 ára. Hávær mótmæli voru á sínum tíma vegna leyfisveitingarinnar en 532 íbúar, 18 ára og eldri skrifuðu undir mótmæli við því að Lýsi hf. fengi starfsleyfi sitt endurnýjað.

Leyfisveitingin var kærð af íbúum og fyrrum bæjarstjórn til Umhverfisráðuneytisins sem kvað upp úrskurð um að starfsleyfið yrði einungis til átta ára. Núverandi starfsleyfi mun því renna út þann 6. júní nk. eða eftir tæpar tvær vikur.

Fyrir um ári síðan birtum við hjá Hafnarfréttum frétt sem bar heitið „Lyktarmengun senn á enda – Katrín í Lýsi boðar breytingar“. Í þeirri frétt var viðtal við Katrínu forstjóra Lýsis þar sem hún sagði að það væru „fáir varanlegir kostir eftir aðrir en að flytja starfsemina út fyrir bæinn.“ Einnig nefndi hún að til stæði að byggja verksmiðju fyrir utan bæinn til að koma í veg fyrir lyktarmengun í bænum. Frá þeim tíma hefur markaður fyrir þurrkaða hausa hrunið en hann er nánast einungis í Nígeríu.

Samkvæmt heimildum Hafnarfrétta eru litlar líkur á því að ný verksmiðja rísi fyrir utan bæinn á næstunni og nú hefur fyrirtækið sótt um endurnýjun á starfsleyfi á sama stað í Þorlákshöfn.

Reynt var að ná í Katrínu forstjóra Lýsis við vinnslu þessarar fréttar án árangurs.