Bæjarstjórn tók jákvætt í að gera samkomulag við Lýsi

olfus_lysi01Bæjaryfirvöld í Ölfusi áttu í byrjun vikunnar fund með forsvarsmönnum Lýsis vegna fiskþurrkunar í Þorlákshöfn og starfsleyfi verksmiðjunnar. Á fundinum óskuðu forsvarsmenn Lýsis eftir því að undirritað yrði samkomulag milli Lýsis og Ölfuss um skilyrta og tímabundna heimild fyrirtækisins til rekstur verksmiðjunnar í Þorlákshöfn.

Lýsi hefur sótt um tímabundið starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands á sama stað en bygging nýrrar verksmiðju fyrir utan þorpið hefur verið sett á bið vegna aðstæðna á mörkuðum erlendis.

Í ljósi aðstæðna tók bæjarstjórn jákvætt í að slíkt samkomulag yrði gert. Forsendur samkomulagsins skulu þó vera ófrávíkjanlegar, skýrar, miða að bestu loftgæðum í Þorlákshöfn og vera tímasettar.

lýsiMálið var tekið upp á bæjarstjórnarfundi í gær, fimmtudaginn 27. maí, og var forseta bæjarstjórnar og bæjarstjóra falið að leggja drög að slíku samkomulagi fyrir forsvarsmenn Lýsis og kynna Heilbrigðiseftirliti Suðurlands. Málið var samþykkt með sex atkvæðum. Guðmundur Oddgeirsson sat hjá.

Bókun bæjarstjórnar og bókun Guðmundar má sjá í heild hér að neðan:

Í byrjun þess kjörtímabils sem nú stendur yfir hófu forsvarsmenn sveitarfélagsins viðræður við forsvarsmenn fiskþurrkana í Þorlákshöfn vegna þrálátrar lyktar sem frá starfseminni leggur og veldur íbúum og gestum verulegum óþægindum. Í þessum viðræðum var leitað lausna sem fyrirtækjunum hentaði og samfélagið væri sátt við. Fljótlega var stefnt að því að skipuleggja iðnaðarsvæði vestan Þorlákshafnar, fjarri íbúðabyggð, fyrir slíka starfsemi og hefur aðalskipulagsbreyting vegna þess þegar verið staðfest. Áform voru uppi um það sl. sumar, þ.e. 2015, að framkvæmdir við nýja verksmiðju Lýsis myndu hefjast í byrjun árs 2016 ef öll áform gengju eftir.

Nánast eini markaður íslenskra framleiðenda á þurrkuðum fiskafurðum er í Nígeríu en á sumarmánuðum 2015 fór að gæta þrenginga á þeim markaði vegna efnahagsástands í landinu. Vandamálið í Nígeríu er margþætt en fyrir framleiðendur þurrkaðra fiskafurða eru það gjaldeyriskreppa og gjaldeyrishöft sem mest áhrif hafa þar sem næran, nígeríski gjaldmiðillinn, hefur hrunið í kjölfar lækkandi olíuverðs sem er helsta útflutningsvara landsins. Nú er svo komið að milljarða útflutningur frá Íslandi til Nígeríu er við það að stöðvast og mikil óvissa ríkir um framtíðarhorfur markaðarins.
Vegna þessa ástands hafa áform um uppbyggingu nýrrar verksmiðju vestan Þorlákshafnar verið sett á bið en vonast hefur verið til þess fram á daginn í dag að úr ástandinu rættist. Því miður er sama óvissuástand uppi og hafa forsvarsmenn Lýsis því sótt um tímabundið starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands fyrir verksmiðju fyrirtækisins í Þorlákshöfn.

Á fundinum óskuðu forsvarsmenn Lýsis eftir því að undirritað yrði samkomulag milli Lýsis og Ölfuss um skilyrta og tímabundna heimild fyrirtækisins til rekstur verksmiðjunnar í Þorlákshöfn.
Í ljósi aðstæðna tekur bæjarstjórn jákvætt í að slíkt samkomulag verði gert en forsendur þess skulu ófrávíkjanlegar, skýrar, miða að bestu loftgæðum í Þorlákshöfn og vera tímasettar. Helstu skilyrði bæjarstjórnar fyrir slíku samkomulagi hafa verið rædd meðal kjörinna fulltrúa.

Forseta bæjarstjórnar og bæjarstjóra er falið að leggja drög að slíku samkomulagi fyrir forsvarsmenn Lýsis og kynna Heilbrigðiseftirliti Suðurlands.
Ef samkomulag næst verður það lagt fyrir bæjarstjórn með formlegum hætti á næsta fundi.

Samþykkt með sex atkvæðum.

xo_kosningar2014_Guðmundur OddgeirssonGuðmundur Oddgeirsson á móti og lagði fram eftirfarandi bókun:

„Starfsleyfi Lýsis hf rennur út þann 6. Júní 2016. Lýsi hf hefur haft nægan tíma til að gera eitthvað í loftmengunarmálum vegna fiskþurrkunar, en átta ár eru liðin frá því að núverandi starfsleyfi var gefið út þann 6. júní 2008 í mikilli óþökk bæjarbúa sem og þáverandi bæjarstjórn.
Íbúar og bæjarstjórn kærðu útgáfu starfsleyfisins til umhverfisráðherra sem í úrskurði sínum stytti starfsleyfið úr 12 árum í átta ár sem eru nú liðin.
Umrædd starfssemi er heftandi fyrir þróun búsetu og atvinnumál Þorlákshafnar.
Ég lít svo á að ekki sé ásættanlegt að gera samkomulag við Lýsi hf um áframhaldandi starfsemi á núverandi stað við Unubakkann í ljósi þess sem á undan er gengið, hvorki til skemmri eða til lengri tíma og mun því greiða atkvæði gegn væntanlegu samkomulagi við Lýsi hf vegna fiskþurrkunarinnar á núverandi stað“.