Berglind Dan og Jakob Unnar valin í unglingalandslið Íslands í badminton

badminton_thor2016_webÍ vetur voru Berglind Dan Róbertsdóttir og Jakob Unnar Sigurðarson valin til að æfa með unglingalandsliðum Íslands í badminton, Berglind Dan í flokki U17 og Jakob Unnar í flokki U15. Nokkrir æfingadagar hafa verið yfir veturinn sem og stærri æfingarbúðir þar sem þau hafa æft með sínum aldursflokkum og einnig eldri spilurum.

Valið er í æfingahópa landsliðanna eftir stöðu á styrkleikalista Badmintonsambandsins og er sá listi háður gengi á mótum. Alls eru 8 unglingamót yfir veturinn sem gefa stig á styrkleikalista og er mikilvægt að mæta á sem flest mót til að komast ofarlega á listan. Jakob Unnar er í 6. sæti styrkleikalistans í sínum flokki og Berglind Dan í 6. sæti í sínum. Auk þess keppa þau bæði í B-flokki fullorðinna þar sem keppnin er orðin mun harðari og mótin 11 talsins yfir veturinn. Þau hafa bæði staðið sig þar með ágætum og er Berglind Dan í 7. sæti í B-flokki fullorðinna.

Erfitt er að komast í keppnishóp í badminton þar sem einungis 2-4 efstu á styrkleikalista í hverjum flokki geta keppt á hverju móti. Auk þess eru aðeins 1-3 alþjóðleg mót á ári í hverjum flokki og því hörð barátta eftir sæti. Því miður hafa krakkarnir því ekki verið valin til að keppa fyrir Íslands hönd á erlendri grundu.

Það er einnig gaman að segja frá því að Axel Örn Sæmundsson, aðstoðarþjálfari, hefur æft með öllum unglingalandsliðum Íslands fram að þessum vetri en keppnin er orðin ansi hörð í hans flokki og komst hann því miður ekki í hópinn í ár. Þau eru öll eljusöm á æfingum og einbeitt í því að bæta sig og gera betur og hefur það svo sannarlega skilað þeim þessum frábæra árangri. Þessir krakkar eru góðar fyrirmyndir og mikil hvatning fyrir aðra iðkendur og sýna það að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Í lokin langar mig að segja frá því að lokahóf deildarinnar fór fram þann 12. maí og voru verðlaun veitt fyrir góðan árangur í vetur. Sigríður Júlía Wium Hansdóttir og Björk Gunnarsdóttir fengu viðurkenningu fyrir bestu ástundun og fékk Sigríður Júlía einnig viðurkenningu fyrir mestu framfarir í vetur. Berglind Dan var síðan valin badmintonmaður Þórs. Ég vil óska þeim til innilega hamingju með árangurinn og öllum hinum fyrir góðan vetur.

Karen Ýr Sæmundsdóttir, þjálfari