Ýldan áfram um ókomin ár?

Guðmundur OddgeirssonEnn og aftur þurfa íbúar Þorlákshafnar að hella sér í baráttu fyrir sjálfsögðum réttindum eins og loftgæðum. Þessi barátta hefur staðið yfir á annan áratug og árið 2008 var tekist mikið á þegar núverandi starfsleyfi fyrir fiskþurrkun Lýsis var gefið út.

Bæjarbúar og bæjarstjórn þess tíma gerðu allt hvað þau gátu til að koma í veg fyrir að Heilbrigðisnefnd Suðurlands gæfi út starfsleyfið til 12 ára. Heilbrigðisnefnd Suðurlands og þáverandi framkvæmdastjóri þess tóku afstöðu gegn íbúum en með fyrirtækinu. Íbúar sem og bæjarstjórn kærðu útgefið starfsleyfi til umhverfisráðherra sem með úrskurði sínum stytti starfsleyfið úr 12 árum í 8 ár ásamt því að bæta við ýmsum starfsleyfiskilyrðum.

Núna eru þessi 8 ár liðin og okkur íbúum hefur verið talin trú um að nú eigi þessi sóðastarfssemi að fara út úr bænum. Bæjarstjórn er búin að klára alla skipulagsferla vegna lóðar sem er talsvert fyrir vestan Þorlákshöfn og ekkert því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir hvað það varðar.

En hvað, fyrirtækið hefur sótt um endurnýjun starfsleyfis á sama stað sem er nánast í miðbæ Þorlákshafnar. Ekkert fararsnið er á fyrirtækinu og hvergi að sjá að því sé nokkur alvara með að flytja starfsemina og þó hefur það haft 8 ár í þessari lotu til að gera eitthvað í sínum málum. Fyrirtækið talar um erfiða markaðsstöðu, vill sjá fram á næsta ár og taka svo ákvörðun um framhaldið. Ég bara spyr, eigum við íbúar hafa samúð með fyrirtækinu? Eigum við að fórna heimilum okkar áfram um ókomin ár? Eigum við að fórna eigin tækifærum í að byggja upp nýja starfssemi og að efla það sem er? Ég segi nei, ef fyrirtækið sér ekki hag í að flytja starfssemina burt úr bænum þá á bara loka strax.

olfus_lysi01Bæjarstjórn og bæjarbúar hafa byggt upp miklar væntingar vegna þess að núna loksins sjái fyrir endann á því að Lýsi hf dæli ýldu yfir bæjarbúa og gesti dag og nótt allt árið um kring. Bæjarstjórn hefur lagt talsvert fé í kynningarmál, fengið ráðgjafafyrirtæki til liðs við sig og bæjarbúar hafa vakið upp allskonar hugmyndir að starfsemi sem mætti setja af stað þegar við værum laus við ýlduna. Ráðgjafar okkar hafa sagt að það sé sjálfhætt með markaðssóknina fái fiskþurrkanir áframhaldandi starfssleyfi hér innanbæjar.

Því miður eru allar líkur á því að Heilbrigðisnefnd Suðurlands haldi uppteknum hætti og veiti fiskþurrkun Lýsis áframhaldandi starfsleyfi. Það má sjá í auglýsingu á heimasíðunni www.hsl.is þar sem væntanlegt starfsleyfi er kynnt og að núna á að veita það til tveggja ára. Þar eru einnig allir frasarnir saman komnir, „skal koma í veg fyrir eða draga úr loftmengun“, „takmarka lyktarmengun“, lysi_web01„valda ekki óþægindum í umhverfinu vegna lyktarmengunar“. Í eyrum okkar sem búum við þessi ósköp hljómar þetta eins og brandari því það er ekki hægt að draga úr, takmarka og valda ekki óþægindum vegna ýldu. Það er ekkert til sem heitir lítil ýldulykt. Að ætla sér að framlengja þessa óværu um 2 ár er galið því við vitum í ljósi þess sem á undan er gengið að þá verður þetta sagan endalausa, síðustu 8 ár dugðu ekki til breytinga. Ekkert mark var tekið á mótmælalistanum sem 532 íbúar Þorlákshafnar undirrituðu á sínum tíma.

Endurnýjun starfsleyfisins verður rothögg á allar þær væntingar sem hafa sprottið upp í kjölfar þess að nú loksins, loksins fái íbúar Þorlákshafnar þau loftgæði sem þeim ber samkvæmt lögum. Innviðir Þorlákshafnar eru mjög góðir, frábærir skólar, íþróttaaðstaða til fyrirmyndar, barnvænt umhverfi og gríðarlegt landrými fyrir atvinnustarfssemi hvort sem hún er hafnsækin eða ekki en því miður er okkur haldið í gíslingu.

Guðmundur Oddgeirsson