Á vit nýrra ævintýra

Jón og ÁstaJón og Ásta eru vel þekkt hér í Þorlákshöfn og voru þau bæði að kenna sinn seinasta vetur í grunnskólanum. Að því tilefni tók Sigríður Guðnadóttir viðtal við þau sem birtist á heimasíður Grunnskólans í Þorlákshöfn og ákváðum við að birta það í heild enda virkilega gott viðtal.

Á vit nýrra ævintýra

Jón Hafsteinn Sigurmundsson kveður nú Grunnskólann í Þorlakshöfn eftir 45 ára starf. Hann hóf kennslu við skólann haustið 1971 sem þá hét Barnaskóli Þorlákshafnar, ásamt konu sinni Ástu Júlíu Jónsdóttur.

Þau komu hingað kornung að árum til Þorlákshafnar með frumburðinn en síðan átti þau eftir að eignast þrjú mannvænleg börn í viðbót. Þegar þau óku hingað í fyrsta sinn sá ekki út úr augunum vegna sandbyls. Jón talar af mikilli virðingu um frumbyggjanna og þeirra ótrúlega starf í uppbyggingu staðarins sem felst m.a. í að hefta sandfokið með melgresi. „Þvílíkar breytingar á öllu“ segir Jón upptendraður og leggur áherslu á orð sín.

skolinn_bleikaslaufanJón hefur unnið með öllum skólastjórum sem hafa stýrt Grunnskólanum í Þorlákshöfn en það eru fjórir: Gunnar Markússon, Bjarni Eiríkur Sigurðsson, Halldór Sigurðsson og síðast liðið ár hefur hann starfað með Guðrúnu Jóhannsdóttur. Jón hefur verið aðstoðarskólastjóri í 28 ár.

Jón segir það blendnar tilfinningar að vera við skólaslit í síðasta skipti. Að undanförnu hafi allt verið í síðasta skipti; síðasta kennslustundin, síðasta prófið og svo að kveðja. Hann segist kveðja ævistarf sitt með söknuðu í hjarta en það örli svo sannarlega á tilhlökkun líka. Hann sé fullfrískur og það séu ekki allir svo heppnir að geta hætt að vinna í fullu fjöri. Hann segist reyndar ekki alveg búinn að átta sig á þessu öllu en það komi smátt og smátt. „Ég mun sakna skólans og samstarfsfólksins og ég vona að böndin slitni ekki alveg á milli“ segir Jón og bros færist yfir andlitið.

Eru einhverja minningar sem koma upp á yfirborðið þegar þú stendur á þessum tímamótum?

„Mér verður oft hugsað til fyrstu áranna hérna, til fumbýlisáranna. Hvað allt var ofboðslega frumstætt þegar ég kom hingað fyrst, hvað þróunin hefur orðið mikil og hvað mikið hefur breyst. Hugsunarháttur fólks og viðhorf þess til menntunar hefur breyst gífurlega. Nú þykir alveg sjálfsagt og nauðsynlegt að mennta sig. Hér áður fyrr var hugsunin bara sú að komast á sjóinn eða vinna í fiski eftir grunnskólann því þar voru peningarnir. Nú, svo maður tali nú ekki um nýbyggingar skólans og aðstöðuna. Ég get ekki nógsamlega þakkað ráðamönnum bæjarins í gegnum tíðina hvað þeir hafa verið örlátir og skilningsríkir með að byggja upp aðstöðu fyrir skóla og íþróttir og gera okkur lífið auðveldara.“

Hvernig var að fá kennara til starfa á þessum árum?

„Það var erfitt að fá kennara til starfa. Við þurftum að leita með logandi ljósi að kennurum, jafnvel eftir að skólinn var byrjaður. Ef fréttist af góðum kennara sem var á lausu þá var slegist um hann. Það hafa orðið miklar breytingar þar á. Nú höfum við úrval af mjög vel menntuðum og góðum kennurum.“

Hvað voru margir nemendur hér í skólanum þegar þú byrjaðir að kenna?

„Ég held að þeir hafi verið tæplega 150 og 550 íbúar. Bæjarfélagið var svo ungt á þessum tíma. Hér var bara ungt fólk sem var komið hingað til að vinna. Það voru engir eldri borgara hér þá. Þeir urðu bara til í rólegheitum.“

Hvað voru margir kennarar og starfsfólk?

„Það var skólastjórinn og fjórir til fimm kennarar. Við vorum með fjórar kennslustofur og kennt var fyrir og eftir hádegi, í syðri álmunni var gangur og þar voru kenndar íþróttir og smíðar voru kenndar þar sem geymslan er inn af smíðastofunni. Við voru að kenna til fimm og hálf sex á daginn.“

Var kannski kennt á laugardögum?

„Já, já það var kennt til hádegis á laugardögum. Ég man eftir því að ég kenndi einn veturinn 52 kennslustundir á viku.“

Var það ekki of mikið af því góða?

„Jú, auðvitað var þetta brjálæðislega mikið en það fengust engir í þetta. Þetta var hægt af því að ég kenndi bóklegt fyrir hádegi og íþróttir eftir hádegi og kenndi til hálf sex á daginn.“

Finnst þér mikill munur á nemendum núna og þegar þú byrjaðir að kenna hérna?

„Já, já. Þegar ég byrja að kenna þá voru nemendur í skólanum upp í áttunda bekk, samsvarandi níunda bekk í dag. Elsti bekkurinn var keyrður í Hveragerði. Á unglingastiginu voru erfiðleikarnir. Þar voru átökin, unglingarnir voru teknir á beinið og skammaðir. Það hefur orðið mikli breyting á unglingastiginu frá því var. Núna rennur allt svo ljúft í gegn. Það þarf bara að kenna þeim og varla að það þurfi að skamma þá, hvað þá að tukta þá til. Erfiðleikarnir hafa færst niður á yngri stigin.

Hefurðu einhverjar skýringar á því?

„Nei. Ég hef mínar hugmyndir en ég hef engar skýringar. Við skulum segja að unglingarnir séu þroskaðir í dag eða þroskist fyrr.“

Hafa orðið miklar breytingar á kennarastarfinu?

„Já, mjög miklar þó að grunnurinn sé alltaf sá sami. Þegar ég var að byrja að kenna stóð maður upp við töflu og kenndi; hélt fyrirlestur yfir börnunum og útskýrði allt á töflu. Börnin komu upp að töflu og reiknuðu dæmi og þar var þeim hlýtt yfir. Nú erum við kennarar meira eins og verkstjórar, við skipuleggjum vinnuna og börnin vinna sjálfstætt og uppgötva hlutina sjálf. Þetta er svona megin munurinn á kennslu fyrr og nú. Við erum ekki að mata nemendurna.“

Voruð þið ekki eitthvað að prófa ykkur áfram með breytta kennsluhætti hér áður fyrr?

„Jú, jú í gegnum árum höfum við verið að prófa ýmislegt; við vorum um tíma með „opinn skóla“ og ýmislegt annað. Sumt lukkaðist vel og annað ekki.“

Hefurðu aðallega kennt íþróttir?

„Ég er náttúrlega menntaður íþróttakennari og kenndi íþróttir ásamt stærðfræði. Ég hef kennt stærðfræði alla tíð. Fyrstu árin kenndi maður allt. Ég kenndi ensku, samfélagfræði o. fl. Ég segi oft að ég hafi kennt allt nema dönsku og kristin fræði.“

Hafa einhver eftirminnileg atvik átt sér stað á þínum langa kennsluferli?

„Eftirminnilegust atvikin eru oft bundin við erfiðleika sem tengjast gjarnan einhverjum einstaklingum sem er ekki gott að segja frá. Í gegnum tíðina hefur þetta allt verið svo ofboðslega ljúft og gott, sérstaklega í seinni tíð. Í byrjun hafði maður miklu meiri áhyggjur. Það voru oft svefnlitlar nætur hjá mér?“

Varstu með áhyggjur af nemendum?

Það verður að segjast eins og er á fyrstu árunum mínum hérna voru unglingarnir erfiðir og ég algjörlega reynslulaus. Mér gekk nú ágætlega að halda aga enda fékk ég orð á mig fyrir að vera grimmur. Það þurfti oft að taka í lurginn á þeim.

Hvaðan ertu?

Ég er Vestfirðingur í húð og hár, ættaður af Ströndum og er af Tröllatunguætt. Ég er fæddur á Flateyri við Önundarfjörð og alinn þar upp. Ég fór á Núp í Dýrafirði strax eftir fullnaðarpróf, 12 ára gamall, og var þar í þrjá vetur. Mér líkaði mjög vel á Núpi, skemmtilegt líf á heimavistinni. Ég fór ekki heim nema þrisvar til fjórum sinnum yfir veturinn. Síðan fór ég í Menntaskólann á Akureyri.

Hvað kom til að þú fluttir hingað til Þorlákshafnar?

„Það er nú saga að segja frá því. Eftir að ég útskrifaðist úr Íþróttakennaraskólanum fór ég beint á landsmót að Laugarvatni og var þá samferða skólastjóra sem ég þekkti. Við gengum frá því þarna að ég kæmi til hans og kenndi næsta vetur. Ég kenndi hjá honum um sumarið og við gengum frá stundatöflunni fyrir næsta vetur. Um miðjan ágúst fékk ég skeyti sem í stóð : -Staðan veitt öðrum-. Þá voru góð ráð dýr. Ég hringdi í íþróttafulltrúa ríkisins Þorstein Einarsson. Hann sagði við mig: „Heyrðu, Jón minn ég hef tvo staði fyrir þig, að vísu getur þú staðið á því að þú átt þessa stöðu ef þú vilt far í hart, en ég mæli ekkert með því. Önnur staðan sem er laus er á Fáskrúðsfirði og hin er í Þorlákshöfn.“ Við hjónin ræddum þetta. Við vildum nú heldur fara á Suðurlandið þó að Ásta Júlía þekkti nú ekkert til hérna en ég hafði komið hingað einu sinni. Við drifum okkur hingað og erum búin að vera hér síðan. Ég ætlaði ekki að vera hér nema eitt ár. Ég ætlaði alltaf í Háskólann í frekara nám en mér líkað svo vel að kenna að ég hélt því bara áfram. Eignaðist nýjan draum.“

Þú hefur verið virkur í félagsmálunum í gengum tíðina.

„Já, ég er aðeins búinn að komið við í félagsmálunum. Ungmannafélagið er númer eitt, tvö og þrjú hjá mér. Þar byrjaði ég strax að starfa bæði sem þjálfari og kennari um leið og ég flutti hingað. Það var bara eðlilegur hlutur. Íþróttakennari var kominn á staðinn og hann átti náttúrulega að sjá um íþróttaþjálfunina á sumrin. Það var bara hluti að því að vera íþróttakennarinn á staðnum. Og allt í sjálfboðavinnu. Ég er sem sagt búinn að vera formaður Ungmannafélagsins, forseti og svæðisstjóri Kiwanis, ég var í björgunarsveitinni, stofnaði sjálfstæðisfélagið hérna, var í hreppsnefnd í þrjú kjörtímabil, nefndarmaður í golfklúbbnum, söng í Söngfélaginu og er núna í kirkjukórnum. Ég hef líka verið formaður kjörstjórnar ég ætla að vona að ég haldi því eitthvað áfram. Ég hef mjög gaman af því.

Hvað tekur núna við?

Golf, golf, golf og aftur golf. Golfið verður stundað grimmt. Við hjónin spilum mikið golf. Við höfum líka bæði mjög gaman af ferðalögum, bæði innanlands og utan. Systur mínar búa í Svíþjóð, dóttir okkar er að flytja til Englands með fjölskyldu sína, sonur okkar býr með fjölskyldu sinni á Dalvík þannig að það verður nóg að gera að heimsækja fjölskylduna. Við erum mikið fjölskyldufólk, ekki síst Ásta Júlía. Það eru ættarmót haldin hér og þar. Um síðustu helgi var fjölskyldugolfmót hér hjá okkur, þar gátum við sameinað fjölskylduna og golfið! Ásta Júlía er meira að segja búin að starta ættarmóti í minni ætt. Ég hef líka gaman af því að smíða. Við hjónum höfum bæði gaman að fegra í kringum okkur, halda lóðinni og húsinu við. Við syngjum líka bæði í kirkjukórnum.

Af einhverjum ástæðum skellti spyrjandinn framan í Jón spurningunni um hvort hann ætlaði að halda áfram að búa í Þorlákshöfn. Hann lyftist upp í sætinu, horfði hvasst framan í spyrjandann og sagði með hneykslan í röddinni: „Að sjálfsögðu! Það hvarflar ekki að mér að flytja, það hefur aldrei hvarflað að mér og hvorugu okkar.“ Síðan færðist angurvær svipur yfir andlitið og hann segir: „Okkur líður rosalega vel hérna.“

Það var fengur fyrir Grunnskólann í Þorlákshöfn og bæjarfélagið að fá Jón til starfa sem var tilbúinn að eyða starfsævi sinni við skólann og leggja óeigingjarnt starf að mörkum til bæjarfélagins með þátttöku sinni í félagsstörfum. Þetta á líka við um Ástu Júlíu sem kveður einnig skólann. Þau hafa alltaf verið samstíga hjón. Þau ganga nú hönd í hönd á vit nýrra ævintýra.