Hagræðing og hagsmunir í sjávarútvegi

Billi MaggÍslendingar búa við fiskveiðistjórnunarkerfi sem aðrar þjóðir horfa til en hagkvæmni sjávarútvegs hérlendis hefur aukist mikið síðan hið svokallaða kvótakerfi var í lög leitt.

Öfugt við sjávarútveg víða í heiminum er íslenskur sjávarútvegur arðbær enda hefur mikil framþróun átt sér stað í greininni síðustu ár en framleiðslu nýrra afurða í tengdum greinum hefur vaxið fiskur um hrygg, til dæmis í lyfjageiranum, hönnun og víðar. Nýsköpun í sjávarútvegi hefur leitt til þess að verðmætasköpun í sjávarútvegi hefur aukist til muna.

Hver ber hallann af hagræðingunni?

Samhliða aukinni hagkvæmni hefur krafan um hagræðingu í greininni vaxið. Þetta hefur leitt af sér sameiningu fyrirtækja og sölu aflaheimilda milli sjávarbyggða. Þá hefur aukin gjaldheimta og óvissa um framtíð kerfisins dregið úr hvata fyrirtækja til fjárfestinga og athafna innan sveitarfélaga. Tækniframfarir valda því að störfum fækkar sem getur leitt til fækkunar íbúa í sjávarbyggðum. Þetta eru þau samfélög sem hafa þurft að gjalda fyrir hagræðinguna í greininni. Það virðist ekkert samfélag sleppa algjörlega við þau högg sem fylgja aukinni hagræðingu hvort sem slíkt felur í sér fækkun starfa, fólksfækkun eða tekjuskerðingu. Mín heimabyggð, Þorlákshöfn, þekkir það af eigin raun og það gerir Vestmannaeyjabær líka.

Nauðsynlegt að verja hagsmuni sjávarbyggða

Þannig má sjá að kerfið sem við búum við í dag er ekki gallalaust. Kerfið má ekki vera hafið yfir gagnrýni og ávallt er svigrúm til bóta, án þess þó að breyta grundvallarskipulagi þess. Þrátt fyrir að ég sé í grunninn ekki fylgjandi því að leggja höft á atvinnufrelsi fyrirtækja tel ég, að ef veigamiklir samfélagslegir hagsmunir eru í húfi, þá geti það verið réttlætanlegt í ákveðnum tilfellum. Þar tel ég mikilvægast að leita leiða sem tryggja atvinnuöryggi á viðkomandi svæði og forða því að sala aflaheimilda hafi mikil og neikvæð samfélagsleg áhrif. Um slík úrræði verður að ríkja almenn sátt. Jafnframt verður lagasetning í tenglsum við slíkt úrræði að nákvæm, skýr og til þess fallin að ná fram markmiði sínu ásamt því að vera í samræmi við ákvæði stjórnarskrár.

Nærsamfélagið njóti góðs af verðmætasköpun

Ég er almennt þeirrar skoðunar að nærsamfélög eigi að njóta góðs af þeirri verðmætasköpun sem á sér stað á því svæði sem verðmætin verða til. Á þetta við um alla atvinnustarfsemi sem felur í sér sköpun verðmæta, hvort sem um er að ræða sjávarútveg, orkuiðnað, ferðaþjónustu o.s.frv. Til að mynda er ég þeirrar skoðunar að ef innheimta á veiðigjöld líkt og gert er í dag þá sé eðlilegt að hluti þeirra renni til nærsamfélagsins, þ.e. til sjávarbyggðanna. Það eru þessi samfélög sem þurfa að taka á sig höggið þegar breytingar verða á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Í þessu samhengi er nærtækt að nefna aflabrest og sölu aflaheimilda. Einnig hafa sveitarfélögin þurft að takast á við afleiðingar sem hlotist hafa af töku veiðigjaldsins. Sveitarfélögin gætu nýtt þennan nýja tekjustofn og fjármuni til þess að styrkja innviði, tryggja hagkvæmt rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki, efla nýsköpun og atvinnuþróun.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins fer fram á laugardaginn og gef ég þar kost á mér í 5. sæti. Hljóti ég stuðning ykkar mun ég leggja mitt af mörkum við að tryggja og vinna að framgangi mála sem skipta nærsamfélög og íbúa þeirra máli.

Brynjólfur Magnússon