Ungmennaráð Ölfuss fundaði með ráðamönnum

2016-09-29-14-49-35Í vikunni tók Ungmennaráð Ölfuss þátt í ráðstefnu ungmennaráða á Suðurlandi þar sem öllum ungmennaráðum og sveitarstjórnum á Suðurlandi var boðið að taka þátt. Það var Ungmennaráð Árborgar sem sá um skipulagninguna en ráðstefnan var haldin í samvinnu við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga með stuðningi frá Evrópu unga fólksins.

Megin tilgangur ráðstefnunnar var að ræða hlutverk ungmennaráða í stjórnkerfum sveitarfélaga, til hvers þau eru, hvernig hægt sé að nýta þau betur og mikilvægi þess að ungt fólk komi að ákvarðanatökuferlinu og fái að koma sínum skoðunum á framfæri.

Einnig var rætt um hvað þurfi að bæta á Suðurlandi og var mikið talað um almenningssamgöngur, samgöngumál, skólavist FSu og húsnæðismál.

Gunnar Þorgeirsson, formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, var virkilega ánægður með ráðstefnuna og lagði hann til að þetta yrði árlegur viðburður þar sem allir fulltrúar í sveitarstjórnum eiga að mæta til að ræða við unga fólkið.

Það voru ekki bara sveitarstjórnarmenn sem mættu á ráðstefnuna því þar mátti einnig sjá þingmenn og frambjóðendur til Alþingis.

Fultrúar Ungmennaráðs Ölfuss voru Sesselía Dan Róbertsdóttir, Berglind Dan Róbertsdóttir, Dagrún Inga Jónsdóttir, Jakob Unnar Sigurðsson og Oskar Rybinski og voru þau mjög ánægð með ráðstefnuna og munu þau nýta sér þá þekkingu sem þau fengu á ráðstefnunni til að vinna í þágu ungs fólks í Ölfusi.