Digiqole ad

Kórstarf er fyrir alla – líka þig sem ert yngri en 50 ára!

 Kórstarf er fyrir alla – líka þig sem ert yngri en 50 ára!

sissa01Kæru sveitungar.

Í allt haust er mig búið að langa að ,,stinga niður penna“ varðandi uppáhaldstómstundagaman mitt, kórsöng. Þegar ég flutti hingað til Þorlákshafnar árið 1989 mætti ég fljótlega á kóræfingu hjá Söngfélagi Þorlákshafnar. Við Jóhanna vinkona mín fórum saman, 25 ára gamlar og vorum þá yngstar í kórnum. Þetta var góð ákvörðun. Í Söngfélaginu eignuðumst við marga af okkar kærustu vinum, kynntumst fólki á öllum aldri alls staðar að úr samfélaginu, sungum í kirkjunni og á tónleikum, ferðuðumst innan lands og utan og svo það skemmtilegasta; sungum af hjartans lyst.

Það er mikið vatn runnið til sjávar frá því ég byrjaði í Söngfélaginu. Haldið hefur verið upp á merkisafmæli félagsins, þáttaskil urðu þegar stofnaður var kirkjukór við Þorlákskirkju og Söngfélagið sneri sér eingöngu að veraldlegum söng og skipt hefur verið um söngstjóra. En eitt breytist ekki. Það er alltaf jafn rosalega gaman að syngja í kór!

songfelag01Og þá er komið að því sem veldur mér svolitlum áhyggjum og næstum því hugarangri. Hér í Þorlákshöfn eru starfandi fjórir kórar fyrir fullorðna. Áðurnefnt Söngfélag Þorlákshafnar og Kirkjukór Þorlákskirkju, en einnig sönghópur hinna síkátu eldri borgara ,Tónar og trix og svo Kyrjukórinn sem er kvennakór. Allir hafa kórarnir á að skipa vel menntuðum og reyndum kórstjórum sem vilja byggja upp metnaðarfullt kórstarf. En í kórunum er ákaflega lítil endurnýjun. Það eru ekki miklar ýkjur þegar ég segi að kórmeðlimir allra kóranna séu miðaldra og langflestir komnir yfir fimmtugt. Hvað veldur því? Hefur ungt fólk ekki lengur áhuga á söng? Við Jóhanna vorum yngstar fyrir 27 árum og við erum enn með þeim yngstu í okkar kór! Karlmannsleysi í Kyrjukórnum er 100% og það er skiljanlegt. En ákaflega lítil endurnýjun er í karlaröddum hinna kóranna og oft á tíðum vöntun á körlum. Hvað hafa ungu mennirnir fyrir stafni?

Að lokum langar mig að segja þetta: Að syngja í kór er andlega nærandi. Það er skemmtilegt að glíma við raddaðan söng og félagsskapur í kórum er alltaf frábær því söngurinn kætir og gleður. Að loknum vinnudegi getur verið freistandi að leggjast í sófann og slappa af – en trúið mér; maður kemur alltaf hressari heim af kóræfingu en þegar maður fór af stað. Söngurinn og félagsskapurinn líknar og lætur mann gleyma amstri og áhyggjum hversdagsins.

Ég skora á söngelska Ölfusinga á aldirnum 20-50 ára að skoða í alvöru hvort þátttaka í einhverjum kóranna er ekki eitthvað sem þeir gætu hugsað sér. Söngfélag Þorlákshafnar æfir í sal Tónlistarskólans (í Grunnskólanum) á þriðjudagskvöldum kl. 19:30-21:30. Söngstjóri er hinn bráðhressi Örlygur Benediksson og er öllum velkomið að mæta til að prófa en nýtt og spennandi ,,prógramm“ með landsfrægum tónlistarmanni (af yngri kynslóðinni) er einmitt að byrja í næstu viku.

Með kórkveðju!
Sigþrúður Harðardóttir