Iðnaðarsigur í Icelandic Glacial Höllinni í kvöld

Mynd: Alan J Schaefer
Mynd: Alan J Schaefer

Þórsarar sigruðu Keflavík í hörkuleik í Dominos deild karla í körfubolta í kvöld. Fyrir leikinn höfðu Þórsarar tapað grátlega í Grindavík en Keflavík sigraði Njarðvík í fyrstu umferðinni og mátti búast við hörkuleik milli þessara liða.

Fyrsti leikhluti einkenndist af mikilli stöðubaráttu sem fylgdi báðum liðum allan leikinn. Keflvíkingar pressuðu gríðarlega hátt og settu mikla pressu á heimamenn. Lítið var skorað fyrstu 5 mínútur fyrsta leikhluta en svo fóru menn aðeins að finna skotin sín og staðan að loknum fyrsta leikhluta 18-17 Þórsurum í vil.

Annar leikhluti reyndist lykillinn að sigri Þórsara en Ólafur Helgi Jónsson og Tobin Carberry áttu þar glæsilegan leikhluta og röðuðu Þórsarar niður þriggja stiga körfum á Keflvíkinga sem áttu fá svör við góðum varnarleik Þórsara. Staðan 40-30 í hálfleik fyrir Þór.

Keflvíkingar komu mikið grimmari til leiks í seinni hálfleik og klóruðu í bakkann og tókst þeim að jafna leikinn með gríðarlega sterkum leikhluta sem fór 15-23 fyrir Keflavík. Staðan því 55-53 fyrir Þór þegar haldið var inní 4. leikhluta.

Þar skiptust liðin á að skora en í seinni hluta 4. leikhlutans duttu Þórsarar aftur í gang og náðu góðu áhlaupi á Keflvíkingana sem landaði sterkum heimasigri.

Tobin Carberry átti stórleik en hann hlóð í 30 stig og þar af 10 af vítalínunni. Önnur stig dreifðust svona: Ólafur Helgi Jónsson 11, Davíð Arnar Ágústsson 8, Maciek Baginski 8, Emil Karel Einarsson 6, Þorsteinn Már Ragnarsson 4, Ragnar Örn Bragason 4/7 fráköst, Magnús Breki Þórðarson 3.

Næsti leikur er gegn Haukum á Ásvöllum næsta föstudag klukkan 19:15. Hvetjum fólk til að mæta og styðja Þórsarana!

Áfram Þór.

AÖS