Hafa óskað eftir aðstoð til að örva uppbyggingu á svæðinu

Höfnin, vigtarhús (3)Forsvarsmenn Sveitarfélagsins Ölfuss hafa í tvígang rætt við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið á árinu, þar sem þeir lýstu yfir áhyggjum sínum af þróun atvinnumála í Þorlákshöfn.

Óskaði sveitarfélagið eftir því að leitað yrði leiða til að örva uppbyggingu á svæðinu. Þetta kemur fram í viðtali við Gunnstein R. Ómarsson, bæjarstjóra sveitarfélagsins, í Dagskránni.

Enn hefur ekki náðst að snúa þróuninni við en Gunnsteinn vonast til að með „réttmætum og kraftmiklum aðgerðum verði hægt að efla greinina og atvinnulíf allt á svæðinu“ og telur hann að bætt hafnaraðstaða skipti þar miklu máli.

„Ég tel að bætt hafnaraðstaða í Þorlákshöfn gegni lykilhlutverki í atvinnuuppbyggingu á Suðurlandi. Það er erfitt að sjá hvernig vinnsla sjávarfangs mun þróast til framtíðar en ég held að öflug höfn þar sem reglubundnir flutningar til og frá Evrópu eru í boði muni draga að fyrirtæki sem eru í inn- og útflutningi. Þetta getur bæði átt við um fyrirtæki í fiskveiðum og – vinnslu og önnur fyrirtæki. Það er ekki spurning hvort þessi þróun fari af stað heldur hvenær og þar spila opinberir aðilar stórt hlutverk með þátttöku í uppbyggingu hafnarmannvirkjanna,“ sagði Gunnsteinn í viðtali við Dagskrána.

Viðtalið í heild má lesa hér að neðan og í tölublaði Dagskránnar nr. 2367:

Uppsagnir hjá Fristfiski í Þorlákshöfn: Högg fyrir samfélagið

Fiskvinnslufyrirtækið Frostfiskur í Þorlákshöfn sagði ríflega 30 starfsmönnum upp störfum í byrjun október. Á mbl. is kemur fram hjá Steingrími Leifssyni, forstjóra Frostfisk, að ástæða uppsagnanna sé m.a. óhagstæð gengisþróun og hagræðing í rekstri samfara því. „Þetta er nú bara vegna þess að íslenska krónan er svo sterk og við missum bara mjög mikið af okkar tekjum og þurfum að aðlaga okkar rekstur að því.“ Hjá Steingrími kom einnig fram að fyrirtækið mun fækka línum og draga úr framleiðslu á meðan krónan er svona sterk. Frostfiskur er fjölmennasta fiskvinnslufyrirtæki bæjarins.

Fyrirtækið á engan kvóta og kaupir allan sinn fisk á mörkuðum. Hjá fyrirtækinu munu starfa eftir uppsagnirnar um 75 manns. Gunnsteinn R. Ómarsson, sveitarstjóri Ölfuss, var spurður hvaða áhrif þessar uppsagnir hefðu á atvinnulíf í sveitarfélaginu. „Það er erfitt að lesa í það hvað svona uppsagnir þýða fyrir atvinnulíf í sveitarfélaginu, sérstaklega til framtíðar. Hvernig sem mál munu þróast þá er þetta högg fyrir samfélagið, 30 störf sem hverfa í einu vetfangi hefur áhrif á margar fjölskyldur. Vonandi er atvinnuframboð hérna og á nærsvæðinu þannig að rót komi ekki á þetta fólk sem lendir í þessari slæmu stöðu.“

Hefur sveitarfélagið gripið til einhverra aðgerða?

„Sveitarfélagið sem slíkt er vanmáttugt þegar kemur að málefnum einstakra fyrirtækja og aðgerða hjá þeim. Það hefur hins vegar verið vitað í nokkurn tíma að þungur róður hefur verið hérna hjá fyrirtækjum sem stunda fiskveiðar og -vinnslu. Við forsvarsmenn sveitarfélagsins ræddum við forsvarsmenn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis snemma á árinu og lýstum áhyggjum okkar af fyrirsjáanlegri þróun mála. Því miður hefur ekki náðst að snúa þessari þróun við en samtalið og samvinnan við ríkisvaldið heldur áfram og vonandi verður hægt með réttmætum og kraftmiklum aðgerðum að efla greinina og atvinnulíf allt á svæðinu.“

Hefur verið leitað eftir aðstoð frá opinberum aðilum?

„Eins og fram kemur í fyrri spurningu þá hittum við forsvarsmenn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti í byrjun árs og það samtal var tekið aftur upp nú síðla sumars. Við höfum óskað eftir því að leitað verði leiða til að örva uppbyggingu á svæðinu.

Er eitthvað annað sem þú telur að skipti máli í þessu sambandi?

„Ég tel að bætt hafnaraðstaða í Þorlákshöfn gegni lykilhlutverki í atvinnuuppbyggingu á Suðurlandi. Það er erfitt að sjá hvernig vinnsla sjávarfangs mun þróast til framtíðar en ég held að öflug höfn þar sem reglubundnir flutningar til og frá Evrópu eru í boði muni draga að fyrirtæki sem eru í inn- og útflutningi. Þetta getur bæði átt við um fyrirtæki í fiskveiðum og – vinnslu og önnur fyrirtæki. Það er ekki spurning hvort þessi þróun fari af stað heldur hvenær og þar spila opinberir aðilar stórt hlutverk með þátttöku í uppbyggingu hafnarmannvirkjanna,“ segir Gunnsteinn.