Ætla að opna hótel og afþreyingarfyrirtæki í Þorlákshöfn

black-pearl-ribsafari-1Einar Sigurðsson og hans fjölskylda, sem áður rak fyrirtækið Auðbjörgu í Þorlákshöfn, stefnir á að opna hótel og afþreyingarfyrirtæki í Þorlákshöfn á næsta ári og er undirbúningur vel á veg kominn.

Hótelið verður í gamla Eimshúsinu, sem er staðsett rétt fyrir utan bæinn en til stendur að fara í miklar breytingar á húsnæðinu.

Að sögn Ármanns Einarssonar, sem er einn af eigendum, sjá menn tækifæri í að byggja upp meiri ferðamennsku hér á svæðinu. „Hér í Þorlákshöfn og á svæðinu í kring eru miklir möguleikar þessu tengdu og þetta verkefni gæti verið eitt skref í þá átt að auka fjölbreyttni í atvinnulífinu hér.“

Stefnt er að því að opna hótelið á næsta ári og áætlað er að 14 herbergi verði til í fyrsta áfanga verkefnisins. Ef vel tekst til er hugsunin að hægt verði að byggja við hótelið og fjöldi herbergja fari upp í allt að 60.

Til viðbótar við hótelrekstur er ætlunin að bjóða upp einhverja afþreyingarkosti og er nú þegar búið að fjárfesta í rib bát sem mun bera nafnið Black Pearl og fyrirhugað er að sigla héðan frá Þorlákshöfn yfir sumartímann. Einnig er í skoðun að fjárfesta í fjórhjólum sem yrðu hluti af þessu verkefni.