Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í GÞ

grunnskólinn2Í dag, 16. nóvember, er Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í tuttugasta skipti á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Í tilefni dagsins var dagurinn brotinn upp – á öllum stigum – með ýmsum verkefnum sem tengdust íslenskri tungu.

Undurbúningur Stóru upplestrarkeppninnar hófst formlega í dag í sal nýju kennsluálmu Tónlistarskóla Árnesinga sem verður opnuð formlega í dag með pompi og prakt. Leikskólahópurinn okkar, nemendur í 1., 5. og 7. bekk hittust og lásu upp ljóð og fóru með þulur hvert fyrir annað. Dagskráin hófst með því að stúlkur úr 8. bekk lásu upp ljóð sem þær fluttu í keppninni í fyrra. Nemendur 7. bekkjar fóru vel af stað og verður gaman að heyra í þeim í Stóru upplestrarkeppninni í vor.

Nemendur 6. bekkjar fóru í heimsókn í leikskólann Bergheima og lásu sögur fyrir leikskólabörnin og léku við þau. Nemendur okkar voru mjög ánægðir með heimsóknina.

Upp úr hádegi kom Gunnar Helgason rithöfundur og las upp úr bókunum sínum; Mömmu klikk og Pabbi prófessor, fyrir nemendur á yngsta stigi og miðstigi. Í fjörugum og lifandi flutningi Gunnars lifnuðu persónur bókarinnar við og krakkarnir veltust um af hlátri. Eftir lesturinn voru leyfðar spurningar og krakkarnir voru spenntir að vita meira um söguþráð og persónur en höfundinum vafðist stundum tunga um tönn því ekki mátti gefa of mikið upp.

Nemendur á elsta stigi unnu samvinnuverkefni þvert á stigið í 11 hópum. Unnið var með lög og texta af plötu hljómsveitarinnar Skálmaldar – Börn Loka. Textarnir fjalla um norrænar goðsagnarverur og eru eftir bassaleikarann Sigurbjörn Ragnarsson. Hver hópur fékk eitt lag og texta til að rýna í og niðurstöðunum máttu þeir skila í því formi sem þeir vildu.

Fréttin birtist á heimasíðu Grunnskólans í Þorlákshöfn