Frá þingmanni VG – til ykkar í Suðurkjördæmi

Mörgum sögum fer af viðræðum um stjórnarmyndun og vinnu við fjárlagagerð. Reyndar er ólíku saman að jafna vegna þess að niðurstöður kosninga skópu engar skýrar línur utan um augljósa stjórn en við breytingar á fjárlögum verða til alls konar samstöðuhópar. Vinstrihreyfingin-grænt framboð hefur haldið fast við þau fyrirheit að afla fjár til allra brýnustu umbóta í heilbrigðisþjónustu, menntakerfi og velferðarkerfi, og úrbóta í samgöngum hvers konar. Set það í fyrsta sæti, fram fyrir t.d. breytingar í atvinnumálum eða hvað varðar stjórnarskrá, en hvort tveggja eru þó mikilvæg mál sem ríkisstjórn myndast um. Á ríkisfjármálum hefur strandað þegar hér er komið, um miðjan desember.

Þetta er mér efst í huga þegar hallar að jólum og áramótum, nú þegar vinna við ný fjárlög ríkisins er mikil og ótal erindi berast og áköll heyrast um aukið fé til brýnna verkefna. Eftir nokkra daga taka hugrenningar um jól og nýtt ár að lauma sér í þingstörfin og andrúmsloftið á vinnustaðnum tekur að léttast.

Hin tvöfalda hátíð í desember, gömlu, hefðbundnu jólin og vonglöð áramótin, mótar mannlífið mestan hluta desember. Það er bæði gott og hollt en um leið má minna á hófstillingu og mannúð sem væri óskandi að einkenndi þennan tíma.

Langt frá okkur, víða í heimi, einkenna skelfileg manndráp og mannréttindabrot heilu samfélögin. Við getum bæði fordæmt gerendurna og lýst samúð gagnvart þolendum en verðum að ganga lengra. Sem ríki verðum við að leggja hjálpar- og friðaöflunum lið. Sem mannverur verðum við að aðstoða einstaklinga og fjölskyldur er hrópa á hjálp. Það gerum við með hjálparstarfi þar sem fólkið er statt og með því að taka við flóttamönnum með reisn og kærleika.

Ég óska íbúum Suðurkjördæmis gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári.

Ari Trausti Guðmundsson