Raufarhólshellir – forkynning á uppbyggingu

Í gangi er forkynning á uppbyggingu við Raufarhólshelli en til stendur að byggja upp svæðið við hellinn og inni í honum. Á skipulagi er byggingarreitur fyrir aðstöðuhús þar sem hægt er að taka á móti ferðamönnum og þeir fá búnað til að fara í hellaskoðun. Gert er ráð fyrir að bílaplanið verði lagað sem og aðkoman frá þjóðveginum og gert er ráð fyrir snyrtingu sem er nauðsynleg því gert er ráð fyrir að um 30.000 ferðamenn heimsæki hellinn á fyrsta starfsári eftir opnun en áætlað er að opna vorið 2017.

Hellirinn hefur lengi verið áfangastaður ferðafólks og gestafjöldi á svæðinu orðinn mikill. Hellirinn og nærumhverfi hans er farið að láta á sjá vegna ágangs og slæmrar umgengni í gegnum árin en áætlað er að um 20.000 manns hafi heimsótt hellinn árið 2015. Landeigendur telja því mikilvægt að koma upp aðstöðu og eftirliti til að tryggja að hellirinn og nærumhverfi hans verði ekki fyrir frekari skemmdum.

Megináhersla deiliskipulagsins, sem nú er í forkynningu, er að tryggja öryggi gesta og setja ramma um fyrirhugaða starfsemi á svæðinu, vöxt hennar og viðhald. Skipulaginu er ætlað að tryggja örugga umgjörð um aðgengi að hellinum og koma í veg fyrir ras á gróðri á svæðinu og hellinum sjálfum. Lögð er áhersla á að allar framkvæmdir falli vel að landslagi og ásýnd svæðisins og séu afturkræfar.

Allar þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á svæðinu eru í samræmi við stefnu sveitarfélagsins um afþreyingu- og ferðamannastaði.

Forkynning á Raufarhólshelli