Bæjarstjórn furðar sig á miklum niðurskurði í fjárlögum 2017

Bæjarstjórn Ölfuss lýsir yfir furðu á miklum niðurskurði i fjárlögum fyrir árið 2017 frá fyrra ári og samanborið við stefnumörkun ríkisins í til að mynda nýsamþykktri samgönguáætlun. Þetta kemur fram í bókun bæjarstjórnar.

Í fjárlagafrumvarpinu 2017 er gert ráð fyrir 212 milljónum í hafnabótasjóð en það er 400 milljóna króna lækkun frá 2016. Í nýsamþykktri samgönguáætlun er gert ráð fyrir 1.158 milljónum króna í hafnabótasjóð.

„Þarna er mikið misræmi og ljóst að af mörgum arðbærum og nauðsynlegum verkefnum mun ekki verða ef þetta nær fram að ganga. Það hefur verið fagnaðarefni og viðurkenning fyrir sveitarfélag eins og Ölfus að horft hafi verið jákvæðum augum af ríkisins hálfu til hafnabótaverkefna enda er höfnin í Þorlákshöfn lífæð samfélagsins. Sveitarfélagið hefur á síðustu misserum og árum mátt þola samdrátt í grunnatvinnuvegi samfélagsins sem er útgerð og því hefur verið horft til nýrra verkefna fyrir höfnina. Það er ljóst að þessi áform ríkisins munu ekki hjálpa samfélaginu með nokkru móti. “ Segir í bókun bæjarstjórnar Ölfuss og skorar hún á Alþingi að auka fjármagnið sem ætlað er í hafnabótasjóð á komandi ári og árum.

Þá lýsir bæjarstjórnin undrun sinni á fjölda löggæslumanna í Árnessýslu en á svæðinu eru einungis tveir lögreglubílar eða fjórir lögreglumenn á hverri vakt að sinna almennu eftirliti, en þar búa um 15.000 manns. Á þessu ári fékk embætti Lögreglustjórans á Suðurlandi 76 milljónir króna í gegnum Stjórnstöð ferðamanna til að efla eftirlit yfir sumarið og síðari hluta árs í uppsveitum Árnessýslu (Gullni hringurinn), efla hálendiseftirlit og eftirlit í Öræfum (austursvæði) yfir sumartímann. Stjórnstöð ferðamanna metur það svo að fjárveitingin þurfi að vera 102 milljónir króna á ársgrundvelli en fjárveitingin var einungis vegna 2016 og ekki hefur fengist loforð um hana á næsta ári.

„Mikilvægt er að þessi fjárveiting komist inn í fjárlagagrunn embættisins þannig að hægt sé að skipuleggja þetta eftirlit til lengri tíma og fastráða í það lögreglumenn og skorar bæjarstjórn á Alþingi að sjá til þess að það verði,“ segir í bókuninni.