Frístundastyrkir og frítt í sund fyrir börn að 18 ára aldri

Í gær var samþykkt í bæjarstjórn Ölfuss að taka upp svokallaða frístundastyrki 1. janúar nk. Meginmarkmið styrksins er að tryggja að öll börn og unglingar í sveitarfélaginu geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi og að foreldrum þeirra og forráðamönnum verði gert auðveldara að standa straum af þeim kostnaði sem af þátttökunni hlýst. Styrkurinn fyrir árið 2017 verður 15.000 kr. á hvert barn á aldrinum 6-18 ára.

Einnig var samþykkt að veita öllum börnum yngri en 18 ára frítt í sund en hingað til hefur verið miðað við 16 ára aldur.

Báðar þessar hugmyndir hafa komið fram á ungmennaþingi sem Ungmennaráð Ölfuss hefur haldið og hefur ungmennaráð tvívegis lagt þessar hugmyndir undir bæjarstjórn nú seinast í nóvember sl. Virkilega gaman að sjá þegar bæjaryfirvöld taka tillit til viðhorfa og hugmynda ungs fólks í sveitarfélaginu.