Frábær sigur Þórs gegn Njarðvík í síðasta leik ársins

Þórsarar gerðu mjög góða ferð til Njarðvíkur í kvöld þegar þeir sigruðu heimamenn örugglega 88-104 í Domino’s deildinni í körfubolta.

Þorlákshafnardrengirnir byrjuðu leikinn að krafti með fyrirliðan Emil Karel í broddi fylkingar og leiddu í hálfleik 41-68. Fyrirliðinn setti niður 17 stig í fyrri hálfleik.

Meira jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik en Þórsarar voru þó ávalt skrefi á undan og lönduðu sannfærandi sigri að lokum.

Tobin Carberry átti stórleik í kvöld og þá sérstaklega í seinni hálfleik en hann endaði með 38 stig, tók 24 fráköst og gaf 8 stoðsendingar! Hann skoraði 9 stig í fyrri hálfleik og í þeim seinni bætti hann við 29 stigum.

Langþráður sigur Þórsara í deildinni orðin staðreynd og þar með fyrsti sigurinn síðan liðið vann íslandsmeistara KR í DHL höllinni þann 4. nóvember síðastliðinn.

Þórsarar fara því með sigur í farteskinu inn í jólafrí en næsti leikur Þórs er 6. janúar þegar Grindavík kemur í heimsókn í Icelandic Glacial höllina.