Fasteignaskattur hækkar í Ölfusi

Mynd: Baldvin Agnar Hrafnsson

Bæjarstjórn Ölfuss hefur samþykkt að hækka fasteignaskatt á íbúðarhús og atvinnuhúsnæði en þetta kemur fram í fundargerð bæjarstjórnar frá því 15. desember sl.

Tillagan var samþykkt með 6 atkvæðum en Ármann Einarsson var á móti þar sem hann taldi að þær væru ónauðsynlegar. Lagði hann fram eftirfarandi bókun:

Fyrirhugaðar hækkanir á fasteignaskatti á bæði fjölskyldur og fyrirtæki í Ölfusi eru ónauðsynlegar og ekki aðkallandi fyrir sveitarfélag sem stendur nokkuð vel. Miðað er við að skattur hækki á fjölskyldur úr 0,36% í 0,38% og á fyrirtæki úr 1,6% í 1,65%. Sveitarfélagið Ölfus er að fara í mikið kynningarátak á næsta ári, þetta eru ekki jákvæð skilaboð inn í það ferli.“

Fasteignaskattur á fyrirtæki í Ölfusi er því orðinn eins hár og mögulegt er en skv. lögum um tekjustofna sveitarfélaga er sveitarfélögum ekki heimilt að rukka hærri fasteignaskatt af fyrirtækjum en sem nemur 1,65% af fasteignamati, ásamt lóðarréttindum.