Kvöldstund í Þorlákskirkju

Þann tuttugasta og áttunda desember hefur skapast sú hefð að hafa menningarsamkomu sérstakrar gerðar í Þorlákskirkju.

Samkoma slík er sett saman í tali og tónum, ræðum, upplestri, söng og spili og hefur allar götur frá vígslu kirkjunnar átt sér stað með örfáum undantekningum.

Hvatamaður þessa er tónlistarmaðurinn Jónas Ingimundarson, sem með þessu hefur viljað sýna byggðinni sem hann tengist órofa böndum dálítið vinarþel.

Á samkomum þessum í gegnum árin hafa komið fram fjöldi vina Jónasar úr hópi listamanna og ræðumenn úr fremstu röð. Samkoman að þessu sinni hefst á því að Sigþrúður Harðardóttir kennari í Þorlákshöfn flytur ávarp.

Þá mun dómorganistinn Kári Þormar taka orgelið góða til kostanna og söngstjarnan Sigrún Hjálmtýsdóttir syngur jólalög með Kára við orgelið og nokkur vinsæl lög eftir Sigfús Halldórsson með Jónasi við píanóið.

Leikkonan Ragnheiður Steindórsdóttir flytur nokkur ljóð eftir skáldið Kristján frá Djúpalæk úr fjölbreyttu safni hans, en þess má geta að Kristján var fyrsti starfandi kennarinn í Þorlákshöfn og var Jónas meðal nemanda hans.

Samkomunni lýkur svo á því að sóknarpresturinn séra Baldur Kristjánsson leiðir samkomuna til lykta með hugvekju og allir taka undir í söng.

Allir eru velkomnir á samkomu þessa að sjálfsögðu og bæði ungir og aldnir ættu að geta notið þess sem fram fer á þessari fjölbreyttu dagskrá.

Enginn aðgangseyrir.
Fyllum kirkjuna með söng og gleði þann 28. desember kl. 20