Halldór Ingi er einn af fáum píanóstillum á Íslandi

Þorlákshafnarbúinn Halldór Ingi Róbertsson lauk í sumar þriggja ára námi í píanóstillingum og viðgerðum frá Lincoln Collage Piano School í bænum Newark on Trent í Englandi. Halldór hefur nú stofnað fyrirtækið Verið stillt sem sérhæfir sig í píanóstillingum og viðgerðum á píanóum.

Í viðtali í síðasta tölublaði Dagskrárinnar segir Halldór Ingi að hann hafi ekki verið með á hreinu hvað hann ætlaði sér að gera í framtíðinni. „Ég var búinn að taka sveinspróf í húsasmíði og einnig ljúka stúdentsprófi. Ég frétti að það væri skortur á píanóstillum og ástandið myndi versna á næstu árum þar sem stéttin væri að eldast. Mér fannst þetta tilvalið tækifæri, þar sem það sameinaði áhuga minn á tónlist og hljóðfærum og var einnig mjög praktískt nám,“ sagði Halldór.

Þessi heimilishundur var mjög áhugasamur um störf Halldórs í einni heimsókninni á dögunum.

Halldór segir frá því í viðtalinu að dvölin í Englandi hafi verið mjög góð og eignaðist hann vini úr ýmsum áttum. „Samnemendur mínir voru á ýmsum aldri, af mörgu þjóðerni og með margvíslegan bakgrunn. Okkur kom öllum mjög vel saman og fyrir bragðið á ég vini frá Spáni, Írlandi, Skotlandi, Wales og Englandi.“

Aðspurður út í hvernig námið hafi verið skipulagt sagði Halldór að á fyrsta árinu hafi aðaláherslan verið á stillingar eftir eyranu og minniháttar viðgerðir. Á öðru árinu var haldið áfram með stillingar en nemendum var einnig afhent gömul og næstum ónýt píanó sem þeir gerðu upp að innan og utan. „Á þriðja ári var áhersla lögð á diplómaprófið í stillingum og einnig var okkur aftur úthlutað illa förnum hljóðfærum, á þessu stigi flyglum, sem við gerðum upp á sama hátt og áður. Reyndar var flygillinn, sem ég og þrír aðrir nemendur gerðum upp á síðasta árinu, til sýnis við útskriftarathöfnina,“ sagði Halldór.

Halldór segir fyrirtækið fara vel af stað og er hann aðalega staðsettur á Suðurlandi en er þó viljugur að fara víðar ef þess er óskað. „Í framtíðinni sé ég fyrir mér að ég muni ferðast í kringum landið og muni þá auglýsa fyrirfram hvenær ég verð á hverjum stað,“ sagði Halldór sem á án efa eftir að vera stórt nafn í píanóstillingum í Íslandi áður en langt um líður.

Hægt er að hafa samband við Halldór í gegnum Facebook síðu Verið stillt eða í tölvupósti á veridstillt@gmail.com.