Búið er að loka fyrir aðgang að Raufarhólshelli og mun hann ekki opna aftur fyrr en næsta sumar en þá þarf að greiða 6.400 krónur til þess að skoða náttúruperluna í Ölfusi. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Eins og Hafnarfréttir greindu frá þá voru framkvæmdir við bílaplan hellisins samþykktar af bæjarstjórn Ölfuss í nóvember síðastliðnum. Fyrirtækið Raufarhóll undirbýr nú framkvæmdir í og við hellinn og mun fyrirtækið sjá um rekstur svæðisins en á síðasta ári er talið að um 20.000 manns hafi skoðað Raufarhólshelli.
Hallgrímur Kristinsson, talsmaður Raufarhóls, segir í samtali við RÚV að verið sé að vinna í skipulagsmálum og afla framkvæmdaleyfa. Eins og fyrr segir mun fyrirtækið rukka 6.400 krónur fyrir klukkustundar langa skoðunarferð um hellinn. Þá er einnig stefnt á að opna hellinn á kvöldin í tengslum við sérferðir eins og t.d. norðurljósaferðir.
Raufarhólshellir er á náttúruminjaskrá og samkvæmt Umhverfisstofnun er óheimilt að innheimta gjald að svæðum sem eru á náttúruminjaskrá. Aftur á móti er heimilt að innheimta gjald að svæði til að standa straum af eftirliti, lagfæringum og uppbyggingu svæðisins.