Ölfusingar eiga akstursíþróttakonu og hnefaleikamann ársins 2016

Í kvöld fór fram kjör á Íþróttamanni ársins 2016 þar sem knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson hlaut stóra titilinn.

Tveir Ölfusingar fengu viðurkenningar ÍSÍ í sínum keppnisgreinum í kvöld en athöfnin fór fram í Hörpu.

Gyða Dögg Heiðarsdóttir var kjörinn mótorhjóla- og snjósleðakona ársins og Þorsteinn Helgi Sigurðsson var kjörinn hnefaleikamaður ársins.

Á vef ÍSÍ má lesa umsagnir um íþróttafólk sérsambanda 2016 og eru efirfarandi umsagnir um Þorstein og Gyðu.

Þorsteinn Helgi Sigurðarson:

Þorsteinn Helgi er 19 ára og er nýr í íþróttinni. Þorsteinn hefur æft í aðeins eitt ár en á þessu eina ári hefur hann keppt átta sinnum. Hann er virkasti hnefaleikamaður ársins 2016 í ólympískum hnefaleikum. Honum hefur farið gífurlega fram með hverjum bardaganum og verið valinn boxari mótsins á mjög sterku móti á Ljósanótt. Hann telst auðveldlega sem einn af okkar sterkari upprennandi hnefaleikamönnum í dag.

Gyða Dögg Heiðarsdótir

Gyða er Akstursíþróttakona MSÍ árið 2016 en hún var einnig valin Akstursíþróttakona MSÍ á síðasta ári. Gyða Dögg er Íslandsmeistari kvenna í motocrossi 2016 annað árið í röð eftir gríðarlega baráttu við sína helstu keppinauta. Hún hefur æft af kappi undanfarin ár og tekið miklum framförum í sinni grein.

Frábær árangur hjá okkar fólki og óska Hafnarfréttir þeim innilega til hamingju!