Samstöðufundur sjómanna og fiskvinnslufólks

Kæru sjómenn, fiskvinnslufólk og íslenska þjóðin.

Að þessu sinni stendur okkur til að efna til samstöðufundar sjómanna og fiskvinnslufólks. Þar ætlum við að sýna fram á að báðar starfsstéttirnar standa við bakið á hvor annari þar sem þær mynda ákveðna atvinnukeðju. Fari önnur stéttin í verkfall verður hin verkefnalaus. Við ætlum að hittast á Austurvelli í dag, þann 16. janúar kl. 16:00 – 19:00.

Á þessum fundi sýnum við útgerðarmönnum grjótharða samstöðu okkar og mótmælum því að sjómenn hafi ekki sömu réttindi og annað vinnandi fólk í landinu og við mótmælum þeim hroka og virðingaleysi sem LÍÚ hefur sýnt okkur undafarið með áróðri sem felst í því að fá fólkið í landinu upp á móti sjómönnum. Sjómenn eru látnir taka þátt í rekstri útgerðanna og borga uppihald og hlífðarfatnað sjálfir og fá ekki dagpeninga vegna mikilla fjarveru sinnar frá heimilum og fjölskyldu.

Við mótmælum því einnig að útgerðin hefur með algjöru virðingaleysi sagt upp yfir 1.000 manns úr landvinnslunni í stað þess að halda ráðningasambandi við starfsfólk sitt og fá greitt mótframlag úr atvinnuleysistryggingasjóði til að geta greitt fólki grunnlaunin eins og þeir hafa heimild til að gera.

Það voru sjómenn og fiskvinnslufólk sem byggðu upp landið.
Við biðjum um þinn stuðning.

Íslenskir sjómenn og fiskvinnslufólk.

PS: Mætum hress og kát, sýnum granítharða samstöðu og höfum í fyrirrúmi að þetta er friðsæll fundur. Trommur og skilti eru vel þegin ásamt því að mæta í sjógöllum.