Frábær endurkoma Þórs eftir lélega byrjun

Þórsarar unnu glæsilegan sigur á Haukamönnum í kvöld 94-84 eftir afleiddan fyrsta leikhluta þar sem liðið skoraði einungis 11 stig gegn 30 stigum Hauka.

Hægt og bítandi unnu Þórsarar sig inn í leikinn í 2. leikhluta og var staðan 42-55 gestunum í vil í hálfleik.

Heimamenn komu inn í þriðja leikinn af ógnarkrafti og var leikhlutinn í raun spegilmynd fyrsta leikhluta nema að Þórsarar sáu um sýninguna. Þórsarar unnu leikhlutan 31-13 og staðan fyrir lokaleikhlutan 73-68 Þórsurum í vil.

Haukamenn reyndu hvað þeir gátu í lokafjórðungnum að koma til baka en Þórsarar voru ávalt skrefi á undan og uppskáru að lokum sanngjarnan 94-84 stiga sigur.

Stigahæstur í liði Þórs var Tobin Carberry með 33 stig og tók að auki 13 fráköst. Maciej Baginski kom næstur með 14 stig, Davíð Arnar og Emil Karel skoruðu báðir 11 stig. Halldór Garðar og Ólafur Helgi skoruðu 9 stig og Ragnar Örn 7 stig.