Langþráður draumur Bergþóru að opna blómabúð orðinn að veruleika

Bergþóra Björg Karlsdóttir opnaði nýlega Blómaverkstæði Bergþóru í Þorlákshöfn og er verslunin staðsett á neðri hæð Ráðhúss Ölfuss. Þar með var langþráður draumur Bergþóru um að opna eigin blómabúð orðin að veruleika.

„Ég opnaði búðina 12. janúar síðastliðinn og hefur gengið vonum framar og eru bæjarbúar duglegir að nýta sér þjónustuna, einnig er fólk að koma við frá Reykjavík á leið sinni inn á Selfoss til að ná sér í blóm,“ segir Bergþóra um nýju blómabúðina.

Bergþóra flutti til Þorlákshafnar með fjölskyldu sinni um verslunarmannahelgina árið 2015. Hún útskrifaðist frá Blómaskreytingabraut Landbúnaðarháskóla Íslands vorið 2014 og hefur starfað síðastliðin 6 ár í Blómabúðinni Bjarkarblóm í Smáralind.

Þá hefur hún einnig tekið þátt í Íslandsmeistarakeppni í Blómaskreytingum. „Ég lenti í öðru sæti, það var mikil upplifun og reynsla að taka þátt og vermi ég það sæti enn í dag.“

Blómaverkstæði Bergþóru býður upp á gjafavörur og blóm í úrvali og skreytingar fyrir öll tilefni og tækifæri. „Ég geri blómaskreytingar fyrir brúðkaup, útfarir og allt þar á milli,“ segir Bergþóra Björg að lokum.

Opnunartími Blómaverkstæðis Bergþóru er eftirfarandi:

Mánudagur frá kl:12:00 til kl:18:00

Þriðjudagur Lokað

Miðvikudagur frá kl:12:00 til kl:18:00

Fimmtudagur frá kl:12:00 til kl:18:00

Föstudagur frá kl:11:00 til kl:19:00

Laugardagur frá kl:11:00 til kl:18:00

Sunnudagur frá kl:11:00 til kl:17:00