Ægir styrkir sig og ræður aðstoðarþjálfara

Um helgina skrifuðu alls sex leikmenn undir nýja tveggja ára samninga við Knattspyrnufélagið Ægir sem og nýr aðstoðarþjálfari. Þeir leikmenn sem um ræðir eru Atli Rafn Guðbjartsson, Ólafur Þór Sveinbjörnsson, Pálmi Þór Ásbergsson, Pétur Smári Sigurðsson, Andri Sigurðsson og Ragnar Olsen.

Atli, Ólafur, Pálmi og Pétur eru allir uppaldir Ægismenn og er virkilega ánægjulegt að sjá þá skrifa undir hjá Ægi en markmið félagsins er alltaf að reyna að auka hlutfall heimamanna í leikmannahóp meistaraflokks.

Andri og Ragnar koma frá Reykjavík en hafa verið á samning og leikið með liðinu undanfarin ár og styrkja þeir liðið mikið. Á facebook síðu Ægis kemur fram að félagið fagni því að hafa náð samningum við alla þessa „efnilegu knattspyrnumenn og hlakkar til samstarfsins á næstu árum. Við þetta er að bæta að nú eru alls sjö uppaldir leikmenn Ægis komnir á samning hjá félaginu og er það eitthvað sem við fögnum.“

 

Félagið réði einnig Sveinbjörn Ásgrímsson sem aðstoðarþjálfara félagsins um helgina. „Sveinbjörn er fæddur 1968 og er uppalinn Þorlákshafnarbúi. Hann átti farsælan knattspyrnuferil og spilaði meðal annars með Ægi, Hvöt, Tindastól og Skallagrím á árum áður. Hann sneri sér síðan að þjálfun og hefur komið að þeim störfum víða og líka hér í Þorlákshöfn. Hann þjálfaði hjá Ægi frá 2007 til 2010 og var bæði með yngri flokka og meistaraflokk karla.“