Knattspyrnufélagið Ægir heldur áfram að styrkja sig fyrir komandi tímabil en nýverið bættist Jón Reynir Sveinsson í hóp Ægismanna.

Jón Reynir er fæddur árið 1986 og er fyrrum leikmaður Ægis en hann spilaði með meistaraflokk frá 2003-2010 en þá fór hann til Noregs til að spila með liðinu Våg í Kristiansand. Seinasta sumar spilaði hann svo með Stokkseyri en er loksins kominn heim aftur.

Jón Reynir átti glæstan feril með Ægi á sínum tíma og var valinn leikmaður ársins hjá Ægi árið 2006 og skv. heimasíðunni https://aegirstat.wordpress.com/ er Jón Reynir fjórði leikjahæsti leikmaður meistaraflokks frá upphafi talningar.

Hann er einnig þekktur fyrir mikla baráttu í  leik sínum og gott betur en það en hann er einnig spjaldahæsti leikmaður liðsins.

Það er því klárt mál að Jón Reynir mun styrkja liðið í komandi baráttu en á morgun kl. 13:00 mun liðið spila sinn fyrsta bikarleik í Lengjubikarnum í ár. Leikurinn er á móti Verstra og verður spilaður í Akraneshöllinni.