Skálmöld heldur tónleika í Þorlákshöfn

Ölfusingar og aðrir nærsveitungar ættu að taka frá laugardaginn 22. apríl næstkomandi en þá mun hljómsveitin Skálmöld mæta í höfnina og halda tónleika í Versölum.

Óhætt er að lofa gríðarlegri stemningu þetta kvöld en Skálmöld hefur verið ein allra vinsælasta hljómsveit landsins um árabil og hafa allar fjórar plötur þeirra náð gullsölu á Íslandi.

Sökum stífrar dagskrár utan landssteinanna hefur tækifærum til tónleikahalds hér heima farið ört fækkandi hjá þeim Skálmaldardrengjum og alls ekki fyrirsjáanlegt að það breytist í bráð.

Það er því um að gera fyrir sveitunga og nærsveitafólk að nýta þetta tækifæri en það er ekki nema rúmlega 30 mínútna akstur frá Reykjavík til Þorlákshafnar og enn styttra frá Hveragerði og Selfossi!

Tónleikarnir, sem verða standandi, verða í Ráðhúsi Ölfuss og hefjast kl. 20.00.

Hægt er að kaupa miða á tónleikana á Miði.is með því að smella hér.