Digiqole ad

Ölfus fær styrk til áframhaldandi uppbyggingar í Reykjadal

 Ölfus fær styrk til áframhaldandi uppbyggingar í Reykjadal

Sveitarfélagið Ölfuss fékk í síðustu viku 26.175.000 kr. styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að bregðast við aðkallandi vandamálum í náttúruvernd og öryggismálum í Reykjadal Ölfusi. Frá þessu er greint á vef Ölfuss.

Reykjadal heimsækja að minnsta kosti vel á annað hundrað þúsund ferðamenn árlega til útivistar og baða. Svæðið er víðfeðmt og viðkvæmt en jafnframt hættulegt vegna síbreytilegra hvera og aðstæðna. Verkefnið er til þess fallið að draga úr og leysa verstu vandamálin á svæðinu tengd náttúruvernd og öryggismálum.

Sveitarfélagið Ölfus hefur unnið að þessu verkefni á síðustu árum í samvinnu við Hveragerðisbæ og Hótel Eldhesta og hafa þessir aðilar lagt til þessa verkefnis töluvert fé auk styrkja sem fengist hafa úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða áður til verkefnisins og hefur aðgengi og öll aðstaða verið bætt á síðustu árum með gerð göngustíga og trépalla svo og bættri aðstöðu við laugina sjálfa.