Umhverfisvænni valkostur í ferðaþjónustu á Íslandi

Félagarnir Grétar Ingi og Daði Már. Mynd: Davíð Þór

Ný íslensk ferðaskrifstofa leit dagsins ljós í síðustu viku þegar Grétar Ingi Erlendsson og Daði Már Steinsson setttu á laggirnar Nordic Green Travel.

„Fyrir rúmu ári síðan sátum við félagarnir áfanga sem sneri að nýsköpun í ferðaþjónustu. Kennararnir þar hvöttu alla eindregið til að taka þátt í nýsköpunar- og frumkvöðlakeppninni Gulleggið. Gulleggið er í raun röð námskeiða þar sem frumkvöðlar sem vilja þróa viðskiptahugmyndir sínar geta fengið ókeypis ráðgjöf. Við bjuggum til ákveðið concept, skráðum okkur til leiks og þá var eiginlega ekki aftur snúið. Núna rúmu ári seinna höfum við loksins náð að opna bókunarsíðuna okkar www.nordicgreentravel.com og hafið formlega rekstur,“ segir Grétar Ingi í samtali við Hafnarfréttir aðspurður hvernig hugmyndin kom til.

Hvað gerir Nordic Green Travel?
„Nordic Green Travel er ferðaskrifstofa sem hefur það að markmiði að draga úr neikvæðum áhrifum ferðamennsku og stuðla að ábyrgari starfsháttum innan greinarinnar. Í grunninn þá erum við að endurselja ferðir sem ferðaþjónustuaðilar sjá um að operate-a og setjum okkar twist á ferlið. Til að mynda þá kolefnisjöfnum við allar seldar ferðir í samstarfi við Kolvið og tökum þátt í og stöndum fyrir verkefnum sem stuðla að verndun, varðveislu og hreinsun náttúrunnar.“

Grétar segir ennfremur að fyrirtækið muni stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna um landið og minnka þannig álagið á vinsælustu áfangastaðina.

Eruð þið ekkert hræddir við samkeppnina?
„Auðvitað erum við það. Það er mikil samkeppni á íslenska ferðaþjónustumarkaðnum og erfitt að koma nýr inn og ætla sér að sigra heiminn. Við lítum á þetta sem langhlaup sem mun vonandi gefa af sér í framtíðinni og treystum á að fólk sjái það virði sem felst í því að minnka kolefnisspor sitt og ferðast á ábyrgari máta.“

„Ef fólk vill fylgja okkur á samfélagsmiðlum þá erum við á Facebook, Instagram, twitter, LinkedIn og Pinterest,“ segir Grétar Ingi að lokum um þetta nýja og spennandi fyrirtæki þeirra félaga.