Ert þú áhorfandi eða stuðningsmaður?

Það er ekki oft sem ég fæ að sitja í stúku og horfa á og hvetja liðið mitt áfram. Mér finnst það samt ótrúlega skemmtilegt þó ég verði full stressuð stundum. Frá því ég byrjaði að fylgjast með Þór Þorlákshöfn í körfu (1700&súrkál) hef ég alltaf reynt að láta í mér heyra úr stúkunni og reynt að vera stuðningsmaður.

Mér finnst okkur hér í Þorlákshöfn vanta fleiri stuðningsmenn í stúkuna. Stuðningsmenn sem láta meira og minna í sér heyra allan leikinn (ekki með dónaskap samt). Ég er ekki að segja að þannig þurfi það að vera á hverjum einasta leik (helst samt) en allavega þegar mikið liggur við. Leikmenn á varamannabekknum eiga ekki að þurfa að kalla eftir stuðningnum… það erum við STUÐNINGSMENNIRNIR sem eigum að öskra liðið okkar áfram. Það er svo ótrúlegt hvaða áhrif það getur haft.

Mig langar svo… af því að við erum enn að skapa og skrifa körfuboltasöguna okkar að við sem erum í stúkunni gerum betur og sköpum stuðningsmannahefð með körfuboltahefðinni.

Ég veit við getum það, við sýndum það öll árið 2012!

Anna Júlíussdóttir
Stuðningsmaður Þórs