Þórsarar komnir í oddaleik eftir glæsilegan sigur

Þór vann frábæran sigur á Grindavík í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í kvöld, 88-74.

Þar með jafnaði liðið einvígið og verður hreinn úrslitaleikur á sunnudaginn í Grindavík um hvort liðið fer í undanúrslit.

Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en Þórsarar náðu síðan yfirhöndinni fyrir hálfleikinn og leiddu 47-40 þegar gengið var til búningsherbergja í hálfleik.

Grindvíkingar áttu erfitt með að svara þessu forskoti en þriðji leikhlutinn var stál í stál. Þórsarar voru síðan sterkari í fjórða leikhluta og lönduðu sanngjörnum sigri.

Stigaskor Þórs dreifðist nokkuð vel í kvöld. Stigahæstur var Tobin Carberry með 25 stig, næstur var Emil Karel flottur með 16 stig, Maciej Baginski bætti við 13 stigum, Davíð Arnar og Ólafur Helgi skoruðu báðir 9 stig, Ragnar Örn 8 stig, Grétar Ingi 6 og Halldór Garðar 2 stig.