Ferjuskipið Mykines frá Smyril Line Cargo er væntanlegt til hafnar í Þorlákshöfn á föstudaginn en skipið er núna við strendur Bretlands á leiðinni frá Rotterdam til Færeyja. Skipið kemur til Færeyja á miðvikudaginn þaðan sem það siglir síðan til Þorlákshafnar.
Miklar framkvæmdir hafa verið í Þorlákshöfn fyrir komu ferjunnar og hefur til að mynda Norðurvararbryggja verið fjarlægð og búið er að hlaða alla öldudempandi fláa. Þá hefur höfnin einnig verið dýpkuð.
Mykines er engin smásmíði en skipið er 19 þúsund tonn og er ríflega 138 metra langt, tæplega 23 metrar á breidd og getur flutt 90 tengivagna og 500 bíla í hverri ferð. Vörurnar sem fluttar eru með skipinu eru á tengivögnum sem keyrðir eru um borð í skipið.
Ljóst er að með tilkomu Smyril Line Cargo muni umsvif í Þorlákshöfn stóraukast og væntingar eru um að siglingarnar stuðli að enn frekari vexti og atvinnuuppbyggingu á svæðinu.