Fréttir úr starfi Norræna félagsins í Ölfusi

Líflegt starf hefur verið í Norræna félaginu í Ölfusi á síðasta ári. Á vordögum 2016 var menningarferðin á dagskránni. Farið var á Reykjanesið að þessu sinni og Hljómahöllin heimsótt þar sem skoðuð var sýning um Pál Óskar sem var að sjálfsögðu frábær. Síðan var ekið í Garðinn en þar tók formaður félagsins í Garðinum á móti okkur ásamt nokkrum félögum og óku þau með okkur um bæinn og sýndu okkur það markverðasta. Um kvöldið var svo ekið til Sandgerðis og borðað á veitingastaðnum Vitanum sem sérhæfir sig í skeldýraréttum og fengu ferðalangar frábæra rétti og marga óvenjulega. Það var góð stund sem við áttum þar og getum við hæglega mælt með heimsókn þangað aftur.

Á Jónsmessu var hið árlega fjölskyldugrill félagsins í Skrúðgarðinum og um leið aðalfundur þess. Stærsta málið á þeim fundi var að sjálfsögðu vinabæjarmótið sumarið 2017 ásamt venjulegum aðalfundarstörfum.

Í stjórn félagsins sitja: Halldór Sigurðsson, formaður, Ásgerður Eiríksdóttir, ritari, Ásta Kristjana Jensdóttir, gjaldkeri, Ingibjörg Þ. Þorleifsdóttir, meðstjórnandi og Svanhildur Helgadóttir, meðstjórnandi. Í varastjórn eru Berglind Ósk Haraldsdóttir, Silja Dögg Jensdóttir og Steinunn Þorsteinsdóttir. Á aðalfundinum var ákveðið í ljósi góðrar þátttöku og ánægjulegrar menningarferðar um vorið að fara aðra ferð í haust.

Í októbermánuði var síðan farið af stað á ný og eins og í fyrri ferðinni var Magnús Haraldsson, félagi okkar, bílstjóri í ferðinni. Fyrst var ekið í Herdísarvík en þar tók á móti okkur hinn ágæti og fróði Jóhann Davíðsson og áttum við frábæra stund með honum. Sagðar sögur af staðnum og ábúendum, smakkað var á ýmsum fornum matvælum sem og gömlum drykkjum. Jói fylgdi okkur svo til Reykjavíkur en á leiðinni var stoppað í Krísuvík og slappað af í smá stund innan um ferðamenn sem skoðuðu hverina sem þarna eru um allt. Í Reykjavík var farið í Norræna húsið og þar sýndi Jói okkur myndband þar sem Guðrún Ásmundsdóttir sagði frá lífi tengdu Herdísavík. Að lokum var farið á Kolabrautina í Hörpu og snæddur kvöldverður, en það er yndislegur staður með góðum mat og frábæru útsýni. Það var ánægður hópur félagsmanna sem kom heim úr menningarferðinni seint þetta fallega haustkvöld og voru menn strax farnir að ræða næstu ferð sem verður væntanlega næsta haust þar sem nú fer allur kraftur félagsins í að undirbúa vinabæjarmótið.

Um miðjan nóvember hélt félagið bókakvöld í Bæjarbókasafninu, í samvinnu við bókasafnið, en þá var Norræna bókasafnavikan haldin. Þar lásu upp úr norrænum bókum þau Jakob Unnar Sigurðarson, nemandi í 10. bekk grunnskólans og félagsmenn okkar þau Hannes Sigurðsson, útgerðarmaður og Ingibjörg Þ. Þorleifsdóttir, sérkennari. Yngri skólahljómsveit grunnskólans spilaði nokkur lög undir stjórn Gests Áskelssonar. Þetta var notaleg stund og ánægjulegt hve félagar voru duglegir að mæta ásamt öðrum gestum.

Hinn árlegi jólafundur var síðan haldin í lok nóvember eins og verið hefur í mörg undanfarin ár. Þar er haldið í hefðina og félagar leggja á hlaðborð mat sem tengja má Norðurlöndunum. Skemmtiatriði eru flutt og oftar en ekki eru gestir sem eru á þessum kvöldum boðnir velkomnir í félagið.

Eins og áður hefur komið fram þá er næsta stóra verkefnið Vinabæjarmótið í sumar og væntum við þess að þar muni félagar og sveitungar sameinast og halda mótið með reisn.

Halldór Sigurðsson,
formaður Norræna félagsins í Ölfusi.