158 milljóna króna hagnaður hjá Ölfus árið 2016

Mynd: Baldvin Agnar Hrafnsson

Sveitarfélagið Ölfus var rekið með 158 milljóna króna hagnaði árið 2016 og lækkuðu langtímaskuldirnar um 77 milljónir króna á milli ára. Þetta kemur fram í bókun Bæjarstjórnar Ölfuss.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins námu alls um 2.104 milljónum króna á árinu 2016 og þar af  voru rekstrartekjur A hluta 1.882 milljónir og B hluta 222 milljónir. Rekstrargjöld A og B hluta urðu alls 1.946 milljónir og varð því rekstarniðurstaða A og B hluta jákvæð um 158 milljónir króna. „Þar af var rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 109 mkr. sem er mikill viðsnúningur frá árinu 2015,“ segir í bókuninni.

Engin ný langtímalán voru tekin á árinu 2016. Eigið fé sveitarfélagsins hækkar um 2% á milli ára og var í árslok 2.281 milljónir króna.

Langtímaskuldir sveitarfélagsins lækkuðu um 77 milljónir króna á milli ára og voru í árslok 1.706 milljónir króna.

Handbært fé samstæðunnar í árslok 2016 var 279 milljónir króna og hækkaði það um 128 milljónir á milli ára.

Í sveitarstjórnarlögum er kveðið á um að heildarskuldir og skuldbindingar megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglubundnum tekjum. „Miðað við þessa reiknireglu laganna er útreiknuð skuldaregla sveitarfélagsins þann 31. desember 2016 71.96% og hefur lækkað stöðugt hin síðari ár frá því sem hún var hæst 2009 eða 198%,“ segir í bókun bæjarstjórnar Ölfuss.

„Áfram verður stefnt að því að því bæta og styrkja innviði sveitarfélagsins og gera það enn hæfara til þess að mæta nýjum áherslum og breytingum á þjónustu þess við íbúa.“