Baldur Rafn verður fulltrúi Þorlákshafnar í Eurovision – Viðtal

Þorlákshöfn á að sjálfsögðu fulltrúa í Eurovision í ár en hann Baldur Rafn Gissurarson er hljóðmaður íslenska atriðsins í Úkraínu. Baldur Rafn er uppalinn Þorlákshafnarbúi og er menntaður í hljóðblöndun frá SSR í Manchester en hann hóf feril sinn sem hljóðmaður hjá RDB sem var fyrirtæki sem sérhæfði sig í hljóðkerfum hér í Þorlákshöfn.

Baldur hefur sinnt hinum ýmsu verkefnum allt frá því að „mixa“ sveitaböll í að vinna að þáttaröðunum The Voice Ísland. „Ég starfaði fyrst með Svölu og Einari þegar ég kom að undirbúning The Voice Ísland. Í janúar á þessu ári var ég svo beðinn um að taka þátt í Söngvakeppninni sem hljóðmaður í atriðinu hjá Svölu hér heima. Eftir að lagið kom út heima og fékk þessar mjög góðu viðtökur var ég spurður hvort ég væri ekki örugglega laus ef kallið út til Kiev kæmi og að sjálfsögðu var svarið já,“ sagði Baldur í samtali við Hafnarfréttir.

Að sögn Baldurs er þetta mjög krefjandi verkefni þar sem tíminn sem hvert atriði fær í æfingar og fínstillingar er mjög stuttur en hann var búinn að vinna hluta af vinnunni áður en þau fóru út. „Hér úti ber ég ábyrgð á hljóðinu fyrir hönd Íslenska hópsins í samvinnu við hljóðmenn keppninnar. Eftir að við unnum Söngvakeppnina heima sendi ég glósur hingað út til hljóðmannanna og gátu þeir í kjölfarið undirbúið hljóðblöndunina af laginu og var hún því ca. 80% tilbúin þegar á fyrstu æfingu kom. Hin 20% prósentin voru svo löguð til eftir æfingar hér úti.“

Við óskum Baldri og íslenska hópnum góðs gengis í Úkraínu. Hér að neðan má sjá hvernig atriðið hans Baldurs mun líta út á þriðjudaginn: