Grunnskólinn fær Grænfánann í þriðja sinn

Grunnskólinn í Þorlákshöfn fékk afhentan Grænfánann í þriðja sinn síðastliðinn föstudag. Margréti Hugadóttur frá Landvernd afhenti skólanum fánann við hátíðlega athöfn í blíðskaparveðri.

Grænfáninn er umhverfisviðurkenning sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum.

Umhverfisnefnd skólans með Önnu Margréti Smáradóttur grunnskólakennara í fararbroddi veitti fánanum viðtöku sem og Grænfánaskilti sem hengt verður upp á gafl skólans.

„Nemendur og starfsfólk skólans er afar stolt yfir því að hafa fengið Grænfánann afhentan og líta svo á að umhverfisverkefnið sem hófst að nýju á síðasta skólaári hafi nú fengið byr undir báða vængi og geti haldið áfram að vaxa og dafna,“ segir á heimasíðu Ölfuss.

„Meginverkefni skólans þetta árið er flokkun alls sorps sem til fellur í skólanum og öll sú fræðsla sem flokkuninni tengist bæði til nemenda og starfsfólks. Matarsóunarverkefnið sem einnig hefur verið í gangi í skólanum undanfarin tvö skólaár verður svo næsta útspil skólans þegar kemur að því að endurnýja þarf fánann.“