Fyrirtækið Tálkni ehf. hefur fengið grænt ljós hjá Sveitarfélaginu Ölfusi um að reisa allt að 5 þúsund tonna fiskeldisstöð í Þorlákshöfn. Á síðasta fundi bæjarstjórnar Ölfuss var lagt fram erindi Skipulagsstofnunnar þar sem óskað var eftir umsögn Sveitarfélagsins Ölfuss um áform Tálkna ehf.
„Forsvarsmenn Tálkna ehf. hafa á öllum stigum undirbúnings verkefnisins borið áform félagsins undir forsvarsmenn sveitarfélagsins. Eins og sést í meðfylgjandi skýrslu með erindinu er ítarlega gerð grein fyrir verkefninu, umhverfi þess, mótvægisaðgerðum og vöktun,“ segir í umsögn sveitarfélagsins.
Gert er ráð fyrir að fiskeldið verði á Nesbraut, þar sem nú er grjótnáma á milli hesthúsahverfisins og Ísþórs. Í umsögninni segir jafnframt að aðstæður til fiskeldis á fyrirhuguðum stað séu kjörnar til slíkrar starfsemi. „Mjög stutt er m.a. með fráveitu til sjávar og rask vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar og ásýndaráhrif eru í lágmarki.“
Þá telur bæjarstjórn ekki ástæðu til þess að fyrirhuguð framkvæmd fari í mat á umhverfisáhrifum.