Mikil fjölgun í Grunnskólanum í Þorlákshöfn

Nemendum í Grunnskólanum í Þorlákshöfn hefur fjölgað um 34 á tæpum tveimur árum eða um 17% og eru í dag 230 talsins.

Að sögn Guðrúnar Jóhannsdóttur grunnskólastjóra er von á enn fleiri nemendum á næstu vikum og mánuðum. Ekki þarf að bæta við skólahúsnæðið þar sem húsnæðið var byggt með framsýni í huga og ræður það vel við þá fjölgun og jafnvel þó svo að hún haldi áfram skv. Guðrúnu.

„Segja má að upphafið að fjölguninni hafi orðið fyrstu tvo mánuði ársins 2016 þegar alls 14 nýir nemendur hófu nám við skólann. Frá þeim tíma hefur fjölgað jafnt og þétt og ávallt færri nemendur sem flytja í burtu. Frá skólasetningardegi í ágúst hefur nemendum fjölgað um átta. Við tökum einnig eftir því að þeir sem eru að flytja hingað hafa séð og kynnt sér kynningarátakið „Hamingjan er hér!“ sem er bara ánægjulegt“ sagði Guðrún í samtali við Hafnarfréttir.

Samhliða fjölgun nemenda hefur þurft að fjölga öðru starfsfólki en Guðrún hefur ekki áhyggjur af því þar sem hingað til hafa fleiri sótt um störfin en hafa fengið og er hún því mjög bjartsýn á áframhaldandi gott og öflugt skólastarf.