Mynd dagsins: Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni

Þorlákshafnarbúinn Sæmundur Steingrímsson náði þessari mögnuðu mynd af svokölluðum rosabaug um sólu á dögunum.

Á Vísindavefnum er rosabaug lýst á eftirfarandi hátt.

„Rosabaugar myndast við ljósbrot í ískristöllum í háskýjum, oftast blikuskýjum. Þessir baugar sjást því aðeins ef einhver skýjahula er á himni. Ískristallarnir eru sexstrendingar og þegar ljósið fer í gegnum þá breytir það um stefnu, en misjafnlega mikið eftir því hvernig það fellur á strendinginn. Algengasta stefnubreytingin er 22 gráður, og þess vegna myndast hringur í þeirri fjarlægð frá tungli eða sól á himninum.“

Ljósblettirnir sitthvoru megin við sólina kallast gíll og úlfur. „Gíll eða aukasól er ljósblettur sem fer á undan (sést vestan við) sól og myndast við ljósbrot sólargeislanna. Samsvarandi ljósblettur sem fer á eftir sól (austan við hana) heitir úlfur,“ segir á Veður.is.

Þá er einnig til máltæki sem segir: Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni.