Grétar Ingi hlaut lokaverkefnisverðlaun SAF og RMF

Grétar Ingi, Júlíana, Sólveig og Kristín

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) veittu nýverið Þorlákshafnarbúanum Grétari Inga Erlendssyni ásamt félaga hans Daða Má Steinssyni verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er við háskóla hér á landi. Skrifuðu þeir lokaverkefnið Markaðsáætlun Nordic Green Travel ehf. til BS-gráðu í ferðamálafræði við Háskóla Íslands.

Lokaverkefnið notuðu Grétar Ingi og Daði til að gera markaðsgreiningu og -áætlun fyrir nýja ferðaskrifstofu, Nordic Green Travel ehf., sem þeir reka í dag. Markmið greiningarinnar var að kanna hvernig nýta mætti sjálfbæra starfshætti til aðgreiningar á markaðinum. Nordic Green Travel verður bókunarsíða sem stefnir að því að hjálpa ferðamönnum að ferðast um landið með ábyrgum hætti, setja hag umhverfis og samfélags á oddinn við val á samstarfsaðilum og stuðla þannig að sjálfbærni í ferðaþjónustu á Íslandi.

Mynd: www.rmf.is

Í umsögn dómnefndar um verkefnið segir: „Daði Már og Grétar Ingi eru vel að verðlaununum komnir. Fræðilegur bakgrunnur lokaverkefnisins er sterkur og efnistök eru bæði skýr og vel afmörkuð. Sérstaklega er áhugavert hvernig verkfærakista háskólanemans er nýtt til að svara þörfum umhverfisins. Þar er horft til sjálfbærni og ábyrgrar ferðamennsku, sem er krafa ferðamanns framtíðarinnar. Verkefnið er athyglisvert framlag bæði til nýsköpunar á þekkingu í ferðaþjónustu og til nýsköpunar á ferðaþjónustumarkaði á Íslandi. Óhætt er að segja að sú hugsun sem þarna kemur fram sé á margan hátt öðrum til eftirbreytni“.

Óskum við Grétari Inga og Daða innilega til hamingju með verðlaunin. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á vefsíðunni www.rmf.is og www.nordicgreentravel.is.