Horfum til framtíðar

Grétar Ingi Erlendsson

Það er komið að því… Enn einar kosningarnar! Í þetta skiptið verður þó tilbreyting þar sem um er að ræða sveitarstjórnarkosningar en ekki kosningar til Alþingis sem hafa verið óþarflega margar að undanförnu.

Eftir að hafa ráðfært mig við fjölskyldu og vini, sem allir hvöttu mig áfram (eða þú veist… svona langflestir), tók ég þá ákvörðun að bjóða fram krafta mína í þessum kosningum. Ég hef hitt marga frá því að ég ákvað að taka þátt og flestir hafa tekið mjög jákvætt í þessa ákvörðun mína og aðeins örfáir „úthúðað“ mér fyrir að hafa beygt mig undir „hin illu hægri öfl. En það er einmitt málið, í sveitarstjórnarkosningum er það mín skoðun að maður kýs fólk en ekki flokka. Veit ég fyrir víst að á báðum framboðslistum er fólk sem kemur úr ólíkum áttum og hefur fjölbreyttar skoðanir hvað varðar stjórnmál. Allt þetta fólk á hins vegar sameiginlegt að vilja ljá sveitarfélaginu krafta sína í þágu góðra verka.

Ástæðan fyrir þátttöku minni er margþætt. Aðal ástæðan er þó sú að ég tel það mikinn heiður að fá tækifæri til að leggja mitt af mörkum til að halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið á undanförnum árum og áratugum hér í Ölfusi. Því var afar erfitt að segja nei þegar mér bauðst að taka 3. sætið á D-listanum. Að vera í sveitarstjórn er gríðarlega vanmetið starf. Því fylgir mikil ábyrgð og margar erfiðar ákvarðanir sem þarf að taka. Ákvarðanir sem verða að vera réttar því það er erfitt að fela sig fyrir yfirmönnunum. Þeir eru jú alls staðar, út í búð, í bankanum, á bókasafninu, í sjoppunni, í ræktinni og svo má ekki gleyma aðal vettvangnum, Facebook hópnum Íbúar í Þorlákshöfn. Fólk hefur sem betur fer sterkar skoðanir á því hvernig samfélagið á að mótast og er óhrætt við að láta vita þegar það er ósátt við stöðu mála. Þetta hefur sýnt sig á undanförnum misserum og nokkur órói hefur myndast í samfélaginu. Ég ætla þó ekki að ræða þau mál frekar hér en langar þess í stað að minna á að við búum í litlu samfélagi og því mikilvægt að aðgát sé höfð í nærveru sálar.

Hér í Ölfusi erum við svo heppin að eiga fullt af frábæru fólki sem er tilbúið að vinna fyrir sveitarfélagið af miklum heilindum. Öll höfum við sameiginlegt markmið sem snýr að því að gera sveitarfélagið að betri stað til að búa í og er það mín sannfæring að þetta markmið eigi að vera leiðarljós við allar ákvarðanatökur. Öll gerum við mistök en leiðindi leysa ekkert og eigum við þess í stað að einbeita okkur að framtíðinni. Hvernig ætlum við sem samfélag að gera sveitarfélagið að betri stað og hvaða sýn hafa frambjóðendur til þess að ná fram þeim markmiðum. Þegar þetta er skrifað eru bæði framboðin á fullu í málefnavinnu og hlakka ég mikið til að sjá og sýna hvaða áform frambjóðendur hafa um fallega sveitarfélagið okkar.

Komandi tímar eru gríðarlega spennandi og er ég sannfærður um að sveitarfélagið Ölfus muni halda áfram að vaxa og dafna. Fái ég tækifæri mun ég leggja mig allan fram í þágu okkar allra!

Grétar Ingi Erlendsson
Frambjóðandi í 3.sæti D listans í Sveitarfélaginu Ölfusi