Fíllinn í stofunni

Sigríður Vilhjálmsdóttir og Kristín Magnúsdóttir

Hópurinn sem skipar lista Sjálfstæðisflokks í Ölfusi þetta árið er fjölbreyttur og með víðtæka reynslu úr ólíkum geirum atvinnulífsins. En það sem við eigum ekki síst sameiginlegt er að vilja sjá betri og vandaðri stjórnmál og stjórnsýslu. Í því sem öðru leitumst við fyrst og fremst eftir að hafa jákvæðnina að leiðarljósi og rýna til gagns fremur en að fara fram með offorsi. Af þessum sökum fundum við okkur í dálítið erfiðri stöðu eftir að fundargerð bæjarstjórnar frá 27. apríl sl. var birt á vefsíðu sveitarfélagsins. Í 22. lið fundargerðarinnar er tekið fyrir mál sem lengi hefur valdið ágreiningi og ósætti í sveitarfélaginu, salan á Selvogsbraut 4 eða Rásarhúsinu svokallaða. Á sama tíma og okkur langar að fagna ærlega glæsilegum endurbótum á húsinu og spennandi rekstri sem fljótlega mun hefjast í húsinu þá vakna enn og aftur hugleiðingar um óeðlilega stjórnsýslu varðandi sölu eignarinnar. Engin þörf er á að rekja söguna í löngu máli en deilt hefur verið um það hvort ástæða hafi verið fyrir kaupunum, hvernig auglýsingu hússins var háttað og ekki síst ákvörðun um sölu þess með nær óheyrilega hagstæðum söluskilmálum fyrir kaupandann. Söluskilmálum sem telja verður að mögulega séu svo ívilnandi fyrir kaupandann að jafnræðisregla sú sem stjórnvöldum ber að hafa í heiðri hafi verið þverbrotin.

Fasteignin var seld núverandi eiganda án þess að nokkur útborgun væri reidd fram, aðeins var samið um útgáfu veðskuldabréfs fyrir öllu kaupverðinu með nokkurs konar kúlulánafyrirkomulagi, með algjörum greiðslufresti í sex mánuði og á fimm prósenta vöxtum.  Kjör þessi eru langtum betri en fasteignakaupendum bjóðast almennt við fjármögnun, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða fyrirtæki. En látum það liggja á milli hluta. Vissu fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn og íbúar ekki betur en að málinu væri lokið og að kaupendur myndu efna samkomulag sitt við bæjarfélagið samkvæmt þessu mjög hagstæða veðskuldabréfi.

Annað kom á daginn.  Fyrir skemmstu kom í ljós að skilmálabreytingu á veðskuldabréfinu hafði verið þinglýst og einnig hafði verið gefið út afsal fyrir eigninni.  Það verður ekki annað ráðið af skilmálabreytingunni að veðskuldabréfið hafi verið í vanefndum frá því í september 2017 þegar skilmálabreytingin var gerð í febrúar 2018  og að afsal hafi verið gefið út án þess að nokkur greiðsla hafi farið fram. Þá var málið ekki tekið fyrir með formlegum hætti í bæjarráði eða bæjarstjórn þannig að íbúar eða kjörnir fulltrúar vissu um gerð viðaukans og viðbótar greiðslufrest.

Af þessu tilefni lagði fulltrúi minnihluta fram bókun (sjá lið nr. 22) um málið á síðasta bæjarstjórnarfundi og setti fram nokkrar mikilvægar spurningar, m.a. um greiðslu dráttarvaxta og vitneskju annarra bæjarfulltrúa um málið.  Meirihlutinn bókaði í kjölfarið  í löngu máli það sem virðist vera svar við bókun minnihlutans, án þess þó að þessum mikilvægu spurningum sé þar svarað.  Afstaða meirihlutans er sú að þetta sé minniháttar mál sem bæjarstjóri  getur afgreitt í samráði við lögmannsstofu, án þess að láta kjörna fulltrúa vita.  Þessu getum við ekki verið sammála.  Vitaskuld er unnt að semja um vanskil við starfsfólk bæjarins og er það alltítt. Hitt er annað mál að í þessu tilviki var ekki gengið frá einföldu greiðslusamkomulagi, heldur var gengið sérstaklega frá breytingu á skuldabréfinu með tilheyrandi kostnaði við skjalagerðina og breyttum réttaráhrifum. Ekkert kemur fram um það í svari meirihlutans af hverju ákveðið hafi verið að skilmálabreyta hinu mjög svo hagstæða láni á þann veg að kaupanda væri veittur enn frekari greiðslufrestur en upphaflega, en afleiðing þess er ljós, hún er sú að eftir gerð viðaukans átti sveitarfélagið ekki rétt á greiðslu dráttarvaxta eða gat beitt öðrum vanefndarúrræðum. Kaupandinn hins vegar hafði umráð eignarinnar og afsal fyrir henni án nokkurrar greiðslu í heilt ár.

Í svari meirihlutans er á því byggt að bæjarstjóra hafi verið heimilt að ganga frá þessum skjölum með þessum hætti og vísa þar til tiltekinna lagaákvæða. Láðist meirihlutanum þó að horfa á lagagreinina, 58. gr. sveitarstjórnarlaga heildstætt. Greinin kveður nefnilega á um þá meginreglu að almennt skuli bæjarstjórn fjalla um þar nánar tiltekin atriði, m.a. sölu eigna sveitarfélagsins. Sú undantekning kemur þó fram að heimilt (en ekki skylt) er að fela byggðarráði að taka ákvarðanir sem þessar, að því gefnu að málefnið varði ekki verulega fjárhagslega hagsmuni sveitarfélagsins og að ákvörðun rúmist innan fjárhagsáætlunar.

Það verður seint litið á lánastarfsemi sem reglulega starfsemi sveitarfélags.  Það er nefnilega mikill munur á að semja um greiðslusamkomulag vegna vanefnda á leikskólagjöldum og þeim tilfæringum sem hér voru gerðar. Því teljum við eðlilegt að erindi sem þetta komi fyrir bæjarstjórn eða bæjarráð og málið sé rakið í fundargerð ásamt niðurstöðu. Sú túlkun er enda í algjöru samræmi við meginreglu 58. gr. sveitarstjórnarlaga og tryggir best gegnsæi og vandaða stjórnsýslu. Í þessu máli var einkar áríðandi að vandað væri til allra verka, enda hafði áður komið fram mikil gagnrýni á meðferð málsins hjá bæjarstjórn frá bæði minnihluta og ekki síst frá íbúum sveitarfélagsins.

Þrátt fyrir að meirihlutinn telji þetta minniháttar mál sem átti sér eðlilegar skýringar og ekkert tilefni væri til að funda um þá var þessi málsgrein í lok bókunar meirihlutans: „Þar sem nefndur viðauki hefur fengið sérstaka umfjöllun meðal kjörinna fulltrúa og mögulegrar óánægju í kjölfarið hafa eigendur SF2014 ehf. ákveðið að falla frá viðaukanum og fá honum aflýst og greiða þann mismun sem viðaukinn tók til og liggur það samþykki fyrir“.

Fátt gefur betur til kynna skilningsleysi núverandi meirihluta á þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram í tengslum við kaup og sölu hússins. Það er ekki stóra atriðið hér hvort að viðaukinn sé til staðar eða ekki eða hvort honum er þinglýst eða ekki. Vinnubrögðin eru stóra málið. Þau eru fíllinn í herberginu. Hér skiptir fyrst og fremst máli að viðskipti með eignina eru ekki eðlilegur og vanalegur hluti af umsýslu sveitarfélags og einmitt af þeirri ástæðu er sérstaklega mikilvægt að vandað sé til verka. Hér liggur spurningin í loftinu um það af hverju ákveðið var að ganga frá viðauka með aðstoð lögmannsstofu í stað þess að ljúka málinu með einföldu greiðslusamkomulagi milli bæjarfélagsins og kaupandans? Af hverju var veittur enn frekari greiðslufrestur, að því er virðist alfarið á kostnað sveitarfélagsins?

Að þessu sögðu verður erfitt að trúa því að XO vilji auka á gegnsæi stjórnsýslu sveitarfélagsins. Enda ríma þessi vinnubrögð ekki við gegnsæi og opnari stjórnsýslu.  Þess má líka geta að fulltrúar XO hafa verið í meirihluta í bæjarstjórn í 8 ár og á þeim tíma hefur upplýsingagjöf til íbúa ekki farið batnandi og því ekki verið sinnt sem skyldi að nýta tækniframfarir til aukinnar upplýsingagjafar. Það er nauðsynlegt að úr því verði bætt, enda er aðgengi almennings að upplýsingum nauðsynlegt aðhald við stjórnvöld á hverjum tíma. Kannski sýnir niðurstaða meirihlutans það best. Eftir að upplýsingar um viðaukann fóru á kreik hefur samkomulagið við bæjarfélagið augljóslega verið tekið upp og virðist sem að sveitarfélagið muni nú fá þær greiðslur sem því báru vegna vanefnda kaupandans. Þannig virkar gegnsæi nefnilega. Og einmitt þess vegna viljum við auka það.

Sigríður Vilhjálmsdóttir og Kristín Magnúsdóttir
Frambjóðendur D listans í Sveitarfélaginu Ölfusi